Lífið endurmetið

Sæmundur Þór Sigurðsson vann það afrek á dögunum að ganga á hæsta fjall veraldar utan Himalaya, tind Aconcagua í Andesfjöllunum í Argentínu, skammt frá landamærum Chile.

aconcaca_fjall_vefur.jpg

Sæmundur hóf að ganga á fjöll fyrir fimm árum. ,,Ég hef farið eina ferð á ári erlendis og gengið innanlands líka. Hér heima hefur ég meðal annars gengið á Hvannadalshnjúk, Snæfell og mörg önnur Austfjarðafjöll. Erlendis hef ég gengið í Króatíu og Slóveníu og verið fararstjóri í Píreneafjöllunum. Ég er að fara inn á þá braut að vera fararstjóri í gönguferðum erlendis fyrir ÍT-ferðir,“ segir Sæmundur, sem er 34 ára gamall og bjó þar til fyrir skömmu á Austurlandi og rak fyrirtækið Viðhald fasteigna.

 

Fyrsta langa ferðalagið 

Um það hvernig hann lenti á Aconcagua segist hann hafa verið í þriggja mánaða langri ferð sem hann hóf að skipuleggja fyrir mörgum misserum. Hann fór utan í desember og kleif tvö fjöll í Perú og eitt í Bólivíu, öll um 6.000 metra há, til að venja líkamann við háloftin. Hugmyndin var svo að ganga á Aconcagua með hóp frá ÍT-ferðum, en vegna blankheita varð hann að draga í land. Hann afréð þó á síðustu stundu að prófa fjallið á eigin spítur. Um fjögur hundruð þúsund krónur kostar að kaupa sér leiðsögn og burðarmenn á fjallið.

Aconcagua er 6.962 metrar á hæð. Um 4.500 manns reyna við toppinn árlega og 30% þeirra komast upp. Janúar er aðaluppgöngumánuðurinn en í ár hefur ástandið verið óvenjuslæmt. Fjallið er erfitt veðurfarslega og óvenju fáir hafa komist upp frá áramótum vegna veðurskilyrða. Gangan er að jafnaði tekin á sautján dögum og fer tíminn langmest í hæðaraðlögun. Sæmundur gekk upp á tíu dögum.

,,Það reynir á þolinmæðina. Það er ekki fyrir hvern sem er að hanga í búðunum í ískulda og ég bjó vel að því að vera Íslendingur í þeim aðstæðum. Menn hækka sig um 500 metra á dag til að aðlaga líkamann. Ég fann vel fyrir að súrefni vantaði í loftið, maður andaði mjög hratt og komst afskaplega hægt áfram. Tæknilega séð er gangan ekki erfið heldur eru það hæðin og veðrin sem menn þurfa að gæta sín á. Fólk deyr þarna ef það vandar sig ekki.“

 

Margt hugsað 

Sæmundur segist hafa tekist á við sjálfan sig í fjallgöngunni. ,,Ég var mikið einn og ég tók sjálfan mig í gegn. Ég fór yfir allan minningabunkann, pældi í lífi mínu og verð að segja að það er mjög hollt og ég sé sjálfan mig öðruvísi en áður. Í daglegu lífi hefur maður ekki tíma til að vera að spá og spekúlera í sjálfum sér og þetta var því kærkomið tækifæri.“

Atlagan að toppnum sjálfum var Sæmundi erfið. Hann var kominn með hámarkspúls, átti erfitt með andardrátt og veðrið orðið vont. Hann fór skólengd í hverju skrefi og var klukkutíma að ganga síðustu þrjátíu metra hækkunina. Á toppnum var skyggnið ekki nema 50 metrar en tilfinningin að hafa sigrast á sjálfum sér og fjallinu segir Sæmundur vera ólýsanlega.

,,Maður er bara alveg hissa á þessu. Nú verð ég að gæta mín á að fá ekki of mikið sjálfstraust og leggja út í enn meiri vitleysu,“ segir Sæmundur skellihlæjandi, ánægður með að koma heim í daglegt líf. Næstu dagar fara í gönguskíðaæfingar í Mývatnssveitinni, þar sem hann starfar sem landvörður, auk þess að vera leiðsögumaður hjá ÍT-ferðum. Hann er auðvitað ekki af baki dottinn í fjallamennskunni og þegar búinn að ákveða að sækja landvarðaráðstefnu í Bólívíu undir lok næsta árs. Svo stefnir hann á að vera leiðsögumaður fjallgönguhóps fyrir íT-ferðir. Og auðvitað ætlar hann með liðið á Aconcagua, nema hvað.

 

Mynd: Sæmundur Þór Sigurðsson í efstu búðum á Aconcagua, tveimur dögum áður en hann komst á toppinn./SÞS

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar