Líf Seyðfirðinga snýst um Fjarðarheiði
Sýningunni „Heiðin,“ með ljósmyndum og myndböndum Jessicu Auer um Fjarðarheiði, lýkur á föstudag í menningarmiðstöðinni Skaftfelli á Seyðisfirði. Jessica segir heiðina bæði geta verið grimma en líka gullfallega.„Það er svo auðvelt að taka ljósmyndir á Íslandi. Íslendingar eru kannski orðnir svo vanir náttúrunni hér en hún er ótrúleg. Fyrir mig, sem ljósmyndara, skiptir máli að finna stað sem stendur manni nærri. Fjarðarheiðin er mér nærri.
Við Seyðfirðingar þurfum að fara yfir hana ef við ætlum út úr firðinum. Jafnvel þá daga sem maður ætlar ekkert þá hugsar maður samt um hana því maður skipuleggur í raun líf sitt í kringum hana. Þetta skapar stress og getur lagst á sálina.
Hún hamlar okkur félagslega því maður hikar við að heimsækja vini sína á Egilsstöðum. Það er viðbúið að heiðin sé orðin ófær þegar maður ætlar aftur til baka.
Það jákvæða við þessar aðstæður er að hún þjappar samfélaginu á Seyðisfirði betur saman. Maður þekkir flesta í bænum og veit að hægt er að treysta á það þegar á þarf að halda, jafnvel fyrir útlending eins og mig,“ segir Jessica um ástæður þessa að hún valdi sér Fjarðarheiðina sem viðfangsefni.
Friðsöm og falleg
Sýningin er einn angi þess verkefnis. Jessica hefur undanfarin ár markvisst tekið sér tíma á heiðinni til að taka ljósmyndir. „Ég held það sé mitt að sýna að hún getur verið friðsöm og falleg. Ég er manneskjan sem tekur sér tíma til þess, þannig er mitt vinnuferli og það sést í myndunum.“
Jessica er líka að gera heimildarmynd. Hún segir hugmyndina um Fjarðarheiðina sem viðfangsefni hafa kviknað árið 2019 þegar fyrirheit voru gefin um Fjarðarheiðargöng. Verk Jessicu snúast oft um umhverfi sem breytist og Jessica telur sýnt að með göngum þá breytist Fjarðarheiðin.
En Fjarðarheiðin er meira en einfaldur fjallvegur, til dæmis vinnustaður og útivistarsvæði. „Ástæðan fyrir að ég kann vel við Fjarðarheiðina er að ég er útivistarmanneskja. Ég fer þangað upp til að ganga eða fara á skíði.“
Út í kófið
Fjarðarheiðin er ekki alltaf friðsæl. Á sýningunni er líka myndbandsverk sem sýnir hversu blint getur orðið þar þegar kófar. „Fjarðarheiðin á sér aðra hlið, kaótíska og hættulega sem fólk kann ekki við,“ segir Jessica, sem fór sérstaklega út í óveður síðasta haust til að ná myndum.
„Ég var búinn að ráða mér tökumann því við vorum að mynda fyrir heimildamyndina. Þá viku kom bylur og allt í einu var kominn vetur. Við mynduðum það sem við ætluðum okkur en það var í allt öðru umhverfi en við hugðum – svolítið eins og að keyra Fjarðarheiðina – það er aldrei að vita hvað gerist. Þótt það geti verið fínt hér niður í firði getur verið þreifandi bylur uppi á heiði.
Fyrsta ferðin
Jessica er alinn upp í Montreal í Kanada og lærði ljósmyndun í Concordia-háskólanum, þar sem hún starfar sem stundakennari. Hún kom fyrst til Seyðisfjarðar sem gestalistamaður Skaftfells á nýársdag árið 2015.
„Ég kom með kvöldfluginu austur og tók síðan flugrútuna. Veðrið var ekki hrikalegt en alls ekki gott og það snjóaði. Út um bílrúðuna sá ég snjóflygsurnar og fann bíllinn dansa á veginum. Ég sá ekkert í kringum mig þannig ég fór að velta fyrir mér hvað væri þar.
Morguninn eftir vaknaði ég í myrkri því sólin kemur seint upp í janúar. Ég beið eftir dagsbirtunni og allt í einu var orðið nógu bjart til að ég sæi í kringum mig. Það er eitt eftirminnilegasta augnablik ævi minnar.“
Janúar
Ferðin og dvölin átti eftir að breyta lífi Jessicu. Hún kom fyrst til Íslands árið 2011 í tengslum við ljósmyndaverkefni um lífið á Norðurslóðum. Hún frétti síðar af gestavinnustofu Skaftfells og sótti um að dvelja þar að sumri en var úthlutað janúar. Hún sá fyrir sér að nota dvölina í tölvuvinnu en breytti fljótlega um stefnu. Úr varð sýning og bók með myndum og hugleiðingum um þennan dimmasta árstíma sem Jessica nefndi „Janúar.“
„Ég ákvað strax að ég vildi ekki missa af mínútu af þessari einstöku dagsbirtu þannig ég ákvað að hvern dag yrði ég að vera á ferli utan dyra við að mynda frá sólarupprás til sólseturs. Ég var ekki að leita eftir neinu sérstöku heldur varð úr einhvers konar dagbók.“
Stúdíó Ströndin
Jessica hefur búið með manni sínum á Seyðisfirði að mestu frá árinu 2017. Þau keyptu gamalt hús í sunnanverðum firðinum þar sem þau búa og hafa gert að ljósmyndastofnuninni Stúdíó Ströndin.
„Þarna var síldarvinnsla en líka verbúð þannig við þurftum ekki að gera mikið til að geta sofið þar. Við erum hins vegar búin að innrétta húsið að hluta upp á nýtt þannig að þar sé hægt að kenna ljósmyndun og halda viðburði. Við erum til dæmis með Ljósmyndadaga á Seyðisfirði í maí þar sem við stöndum fyrir viðburðum um ljósmyndun.“
Þau stóðu að baki sýningu og bók, „Skriðusögum“ um aurskriðurnar á Seyðisfirði og eftirmála þeirra. Hún hefur líka unnið sýningu, bók og stuttmynd um breytingar á Íslandi með auknum fjölda ferðafólks. „Staðir fara í gegnum mismunandi skeið. Seyðisfjörður upplifði síldarárin, síðan varð niðursveifla og fólkinu fækkaði. Í mínum huga þá leiðir bara eitt skeið af öðru.“
Smábæir um allan heim glíma við svipaðar áskoranir
Líkt og Ísland með ferðamönnum mun Fjarðarheiðin breytast með jarðgöngum. Jessica efast ekki um að þau komi og segir þau ekki bara öryggismál heldur geri fólk á 21. öldinni kröfur um hreyfanleika og tækifæri með greiðari samgöngum og fjarskiptum. Þá verði heiðin að náttúrulegra svæði með minnkandi bílaumferð. Þótt vegur verði áfram til staðar velji almenningur velja göngin.
„Það gerbreytir nærveru mannsins á svæðinu þegar hundruð bíla fara ekki lengur þar um á hverjum degi.“ Einhverjir munu eftir sem áður slæðast þangað upp. „Fjarðarheiðin er ekki bara staður sem leiðir fólk frá A til B. Hún á stað í hjarta fólks.“
Þótt Fjarðarheiðin snerti fyrst og fremst Austfirðinga þá telur Jessica að fólk annars staðar geti vel tengt við sýninguna. „Það er skiljanlegt að spurt sé að því þar sem stundum setur maður mikla orku í staðbundið mál. En ég held að sýningin eigi vel við í nútímanum. Það er kannski einstakt hversu erfiðar samgöngur Seyðisfjarðar eru og hve fáir slíkir smábæir eru orðnir eftir, en þeir búa við svipaðar áskoranir eins og að unga fólkið fari í burtu í nám og komi aldrei aftur. Þess vegna held ég að fólk víða um heim finni tengingu í verkunum.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.