Lionsfélagar söfnuðu fyrir „Frelsinu“

Félagar í Lionsklúbbi Seyðisfjarðar afhentu nýverið íbúa á Seyðisfirði torfæruhjólastól til afnota. Markmiðið var að auðvelda honum ferðir bæði innanbæjar og utan.

„Þetta kallast TerrainHopper. Það er einhvers staðar á milli skilgreininga, við getum kallað þetta sérsmíðað fjórhjól eða torfæruhjólastól,“ segir Árni Elísson, ritari klúbbsins.

Hvert og eitt tæki er sérsmíðað fyrir viðtakanda þess, sem á Seyðisfirði er Arnar Klemensson. Hann fékk tækið afhent við athöfn í tengslum við 125 ára kaupstaðarafmæli Seyðisfjarðar.

Arnar hefur notast við hjólastól í áratugi en hefur mikinn áhuga á útivist. Lionsfélagar höfðu vonast til þess að stólinn gæti opnað Arnari nýjar leiðir og hann staðfestir það með mikilli ánægju.


Ég kemst allt sem ég ætla mér

„Þetta er geggjuð græja. Ég er búinn að skíra hana „Frelsið“,“ segir Arnar en þegar Austurfrétt náði tali af honum var hann einmitt á ferðinni úti í náttúru Seyðisfjarðar. „Ég er búinn að fara um fjöll og firnindi, allar slóðir sem ég finn og ég kemst allt sem ég ætla mér að fara.

Önnur tæki sem ég hef eru gerð fyrir göngustíga og jafnvel bannað að fara á þeim út í rigningu og snjó. Og það var af ástæðu, því ef að var smá snjór var ég bara fastur. En nú er ég bara á fjórhjóladrifströlli sem fer allt. Þetta er allt annað líf, ef ég er á ferðinni og sé eitthvað sem ég vil skoða uppi í fjalli eða annarsstaðar þá bara fer ég þangað og ekkert vesen.“


Margir lögðu í púkkið

Fullbúið og komið austur kostar tækið um fimm milljónir króna. Söfnunin var hafin þegar klúbburinn kom að henni og lauk við hana með stuðningi bæjarbúa og Sjálfsbjargarfélagsins á Mið-Austurlandi. „Allir þessir aðilar lögðu til töluverðar upphæðir,“ segir Árni.

Tækinu er ýmist stýrt með handföngum eins og fjórhjóli eða stýripinna og knúið af rafmagni. Vitað er af einu sambærilegu tæki hérlendis en það er á Selfossi. Þá var lögð áhersla á að kaupa á tækið allan hann öryggisbúnað sem í boði væri, svo sem veltigrind og fimm punkta belti. „Við vildum verja Arnar ef hann færi offörum á tækinu.“

Frá afhendingu torfæruhjólastólsins. Mynd: Lionsklúbbur Seyðisfjarðar/Jón Halldór Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar