List úr brauði, bók um lífið og einleikur á handpönnu

Listaunnendur nær og fjær verða ekki sviknir á Djúpavogi laugardaginn næstkomandi. Samtímalistasafnið Ars Longa opnar nýja sýningu í Vox húsinu, Sigurður Guðmundsson verður með bókakynningu og um kvöldið verður handpönnu einleikur í Tankinum. Samtímalistasafnið Ars Longa er sjálfstætt starfandi og metnaðarfullt safn sem hóf starfsemi sína undir því nafni 2021. Fyrsta sýningin var sýning Sigurðar Guðmundssonar, Alheimurinn er ljóð, og fór fram í Bræðslunni sumarið 2021. Nú er komið að því að setja upp nýja sýningu en hún ber yfirskriftina hvað var – hvað er – hvað verður?

Á sýningunni koma saman 16 samtímalistamenn víða að frá landinu og sýna mikið úrval fjölbreyttra verka. „Það verða hljóðverk, tónverk, skúlptúrar og málverk sem dæmi en einnig verða fluttir þrennir gjörningar á opnun sýningarinnar“ segir Hildur Rut Halblaub, sýningarstjóri safnsins. Opnun sýningarinnar er klukkan 15:00 en sýningin kemur til með að standa þar til í ágúst.

Verkin spanna langan tímaramma en elsta verkið er eftir Sigurð Guðmundsson og er skrásett frá árinu 1969. Verkið, Galti, a nice girl and a boy tilheyrir nú nýverið sístækkandi safninu ásamt tveimur verkum Kristjáns Guðmundssonar, Vörðubrot og Þríhyrningur í ferningi, sem einnig verða til sýnis. Þess má geta að verkið Vörðubrot samanstendur af 80 heilhveitibrauðum. Eins og áður kom fram verða listamennirnir 16 og má þar nefna líka Hrafnkel Sigurðsson sem hlaut viðurkenninguna Myndlistarmaður ársins á þessu ári.

Að opnun lokinni verður boðið upp á bókakynningu heima hjá Sigurðu Guðmundssyni í húsinu Neðra frá 17 – 19 en þar kynnir hann sína nýjustu og jafnframt stærstu bók, skáldsöguna Sextett. Sigurður segir bókina fjalla um lífið, ástina og listina og hvetur alla áhugasama til þess að líta við.

Síðar sama kvöld kemur tónlistarmaðurinn Tomek Krawczyk fram í Tankinum og flytur tónverk á handpönnuhljóðfæri. Viðburðurinn ber heitið Handpanarama og er handpönnu einleikur. Handpanarama er byggt á frumsömdu efni í bland við flæðandi spunaleik tónlistarmannsins sem hvetur til sjálfsígrundunar og djúprar leitar inná við. Tomek lítur á handpönnuhljóðfærið sem órafmagnaðan hljóðgervil sem býður upp á jafn marga möguleika og ímyndunaraflið leyfir.

Tomek er fjölhljóðfæraleikari, tónlistarframleiðandi, tónskáld, kennari og ötull talsmaður handpönnur tónlistar sem hann býður gestum að hlýða á í Tankinum kvöldið 8. júlí

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar