Listahátíðin LungA hefst í dag

Í dag hefst listahátíðin LungA með formlegu opnunarhófi í Herðubreið klukkan 17:00. Þátttakendur eru mættir á Seyðisfjörð og hófust námskeiðin í dag, af fullum krafti.

 

LungA hefur getið sér gott orðspor og fest sig í sessi hjá fólki bæði hérlendis og erlendis. Um er að ræða listahátíð þar sem sköpun, listum og menningu er fagnað og gefið rúm. Haldin eru námskeið, fyrirlestrar og annarskonar viðburðir yfir vikuna sem svo lýkur með uppskeruhelgi hlaðna sýningum og tónleikum.

Sérstök forskráning í listasmiðjur var fyrir austfirsk börn og ungmenni í aðdraganda hátíðarinnar. Ásamt forgangi í smiðjurnar hlaust Austfirðingum sérstakur afsláttur á þátttökugjaldi og sagði Þórhildur Tinna, hátíðarstjóri, það hafa heppnast gífurlega vel. „Það lukkaðist mjög vel, hingað eru komin alveg 20-30 austfirsk börn og ungmenni til þátttöku.“

Sérstök áhersla er lögð á ást, samvinnu, vináttu, inngildingu og jafnrétti í ár og er þemað SÆLA/BLISS. Dagskráin er þétt skipuð og má þess geta að 96% listamanna sem fram koma eru kynsegin, hinsegin eða konur. Ný stjórn tók við fyrr á árinu og má merkja ákveðnar áherslubreytingar. „Við erum tvö ný sem stýrum hátíðinni, ég (Þórhildur Tinna) og Helena. Við erum spennt fyrir dagskrá hátíðarinnar og sérstaklega fyrir komu Pussy Riot sem verða með sína fyrstu sýningu í kvöld.“

Pussy Riot er upphaflega feminísk pönkhljómsveit sem stofnuð var í Moskvu 2011. Hljómsveitin hefur einsett sér að vekja athygli á réttindabaráttu minnihlutahópa og setur upp pólitíska andófsgjörninga og beinir þá spjótum sínum gjarnan að yfirvöldum. „Miðinn kostar 5900 og rennur ágóði miðasölunnar til barnaspítala í Úkraínu“ segir Þórhildur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar