Ljósaganga Soroptimista í kvöld

Soroptimistaklúbbur Austurlands stendur fyrir árlegri ljósagöngu sinni á Seyðisfirði í kvöld. Gangan markar upphaf átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem Soroptimistar um allan heim taka þátt í.

Átakið hefst í dag, en 25. nóvember er vitundardagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Því lýkur síðan 10. desember á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum degi Soroptimista.

Austfirskir soroptimistar ganga gönguna til skiptis á Egilsstöðum og Seyðisfirði, en hún féll niður í fyrra vegna Covid-faraldursins. Alls hefur gangan farið fram fimm sinnum, en þetta er sjötta árið sem Soroptimistaklúbbur Austurlands tekur þátt í átakinu.

Að þessu sinni verður lagt frá Seyðisfjarðarkirkju klukkan 17:00. Fólk er hvatt til að mæta í appelsínugulum klæðnaði og hafa með sér vasaljós, luktir, kyndla eða sambærilega ljósgjafa. Endað verður við Skaftfell þar sem þátttakendur geta fengið sér hressingu.

Á meðan átakinu stendur verða kirkjur og ýmsar aðrar byggingar í Múlaþingi lýstar upp með appelsínugulum ljósum.

Appelsínugulur er litur átaksins og slagorðið „roðagyllum heiminn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.