Skip to main content

Ljósaganga Soroptimista í kvöld

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. nóv 2021 12:11Uppfært 25. nóv 2021 12:13

Soroptimistaklúbbur Austurlands stendur fyrir árlegri ljósagöngu sinni á Seyðisfirði í kvöld. Gangan markar upphaf átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem Soroptimistar um allan heim taka þátt í.


Átakið hefst í dag, en 25. nóvember er vitundardagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Því lýkur síðan 10. desember á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum degi Soroptimista.

Austfirskir soroptimistar ganga gönguna til skiptis á Egilsstöðum og Seyðisfirði, en hún féll niður í fyrra vegna Covid-faraldursins. Alls hefur gangan farið fram fimm sinnum, en þetta er sjötta árið sem Soroptimistaklúbbur Austurlands tekur þátt í átakinu.

Að þessu sinni verður lagt frá Seyðisfjarðarkirkju klukkan 17:00. Fólk er hvatt til að mæta í appelsínugulum klæðnaði og hafa með sér vasaljós, luktir, kyndla eða sambærilega ljósgjafa. Endað verður við Skaftfell þar sem þátttakendur geta fengið sér hressingu.

Á meðan átakinu stendur verða kirkjur og ýmsar aðrar byggingar í Múlaþingi lýstar upp með appelsínugulum ljósum.

Appelsínugulur er litur átaksins og slagorðið „roðagyllum heiminn.“