![](/images/stories/news/folk/sigurdur_mar_sogur.jpg)
Ljósmyndarinn frá Miðhúsum gefur út Sögur: Myndir sem fá áhorfandann til að hugsa
Sigurður Mar Halldórsson, ljósmyndari frá Miðhúsum á Fljótsdalshéraði, vinnur um þessar mundir að útgáfu bókarinnar Sögur. Hann segir bókina hins vegar hvorki vera ljósmyndabók né skáldsögu.
„Bókin inniheldur myndir sem gefa vísbendingar um atburði eða augnablik sem lesandinn getur notað til að búa til eigin sögur. Bókin er í raun smásagnasafn en það eru engin orð, bara myndir,“ segir Sigurður Mar í kynningu.
Sigurður Mar er uppaldinn á Miðhúsum. Hann lærði ungur að framkalla filmur og stækka svarthvítar myndir. Eftir stúdentspróf fékk hann tækifæri sem ljósmyndari á Þjóðviljanum og nam síðan ljósmyndun í Gautaborg.
Að námi loknu starfaði hann við smíðar og ljósmyndun og tók meðal annars bæjarmyndirnar í nýjustu útgáfu bókarinnar sem flestir þekkja sem Búkollu en heitir Sveitir og jarðir í Múlaþingi. Síðustu 16 ár hefur Sigurður Mar búið á Höfn þar sem hann kennir meðal annars ljósmyndun við Framhaldsskólann.
Sigurður segir að baki Sögum liggi áhugi hans á þjóðsögum, ævintýrum og goðsögnum sem hann hann hafi verið alinn upp við. Við það blandist reynslan af því að skjalfesta atburði líðandi stundar með myndavélinni.
„Ég lærði mjög snemma að ein góð ljósmynd getur sagt alla söguna. Hún ætti ekki að þurfa nein orð. Ég komst upp á lag með að láta staðina segja mér sögurnar. Heimsækja þá oft og fá tilfinningu fyrir þeim. Tilfinninguna reyni ég að endurskapa í myndinni.
Mig langaði að skapa myndir sem hefðu þann eiginleika að áhorfandinn færi að spekúlera í hvað væri eiginlega að gerast.“
Sögurnar eru ólíkar en eiga það sammerkt að fjalla allar um konur. „Það hefur verið nægt framboð af sögum í gegnum tíðina. Sögur af íslenskum alþýðukonum eru mun sjaldnar sagðar.“
Fleira veitir Sigurði innblástur en landslagið, til dæmis hauskúpan af Gráflekk, gömul hrúti frá Miðhúsum eða gömul fjóslugt frá afa ljósmyndarans í Loðmundarfirði.
Sigurður Mar stendur fyrir söfnun fyrir útgáfu bókarinnar á Karolina Fund. Nánar má lesa um söfnunina og bókina hér.