Lokatónleikar Tónlistarstunda á Héraði
Lokatónleikar tónleikaraðarinnar Tónlistarstundir á Héraði verða haldnir í Egilsstaðakirkju annað kvöld, sunnudagskvöld klukkan 20:00.Tónleikarnir í Egilsstaðakirkju eru þeir síðustu í röð sex tónleika sem haldnir hafa verið síðustu þrjár helgar í Egilsstaðakirkju og Vallaneskirkju en skipuleggjandi tónlistarstunda á Hérðaði og listrænn stjórnandi þeirra er Torvald Gjerde organisti á Héraði. Tónleikaröðin hófst fimmtudaginn 24. júní.
Að sögn Torvalds hafa tónleikarnir nú í sumar verið mjög vel sóttir, betur en undanfarin níu ár.
Á lokatónleikunum í Egilsstaðakirkju á sunnudaginn kemur fram ungt fólk sem eru nemendur á framhaldsstigi í tónlist á Fljótsdalshéraði.
Fram koma: Bjarmi Hreinsson píanó, Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir píanó, Leif Kristján Gjerde píanó og Öystein Gjerde gítar. Ingibjörg Ýr lauk framhaldsprófi í vor.
Aðgangur að tónleikunum er ókeypis nú sem endranær.