Lítill árangur af síldarleit á Jan Mayensvæðinu
Nokkur íslensk skip hafa að undanförnu leitað að síld í veiðanlegu magni á Jan Mayensvæðinu en árangurinn af leitinni hefur verið lítill. Meðal skipanna, sem fóru norður undir Jan Mayen, var Lundey NS. Afla skipsins, um 80 tonnum, var landað á Vopnafirði sl. laugardag þar sem hann fór til vinnslu.
Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda á vefsíðu fyrirtækisins, er Lundey nú á síldveiðum fyrir austan landið ásamt Ingunni AK en skipin draga saman eitt troll.
,,Lundey tók við af Faxa RE sem fór með um 1.650 tonn af síld og makríl til Vopnafjarðar um helgina. Faxi er nú á leiðinni á miðin að nýju og þegar skipið kemur þangað þá er stefnt að því að Ingunn fari til Vopnafjarðar með aflann sem Ingunn og Lundey eru komin með. Hann var kominn í 750 tonn í morgun og ef allt gengur að óskum ætti Ingunn að vera komin til Vopnafjarðar á morgun. Það verður reynt að vinna og frysta sem mest af aflanum en það hefur verið allmikil áta í síldinni fyrir austan og það verður því að koma í ljós hve mikið verður hægt að frysta,” segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.