![](/images/stories/news/folk/skuli_bjorn_gunnarsson.jpg)
Lumar þú á verkefni sem gæti hlotið þennan styrk?
„Við viljum fá sem flestar og fjölbreyttastar umsóknir, ekki síst frá ungu fólki sem er að hugsa um verk skáldsins,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, en stofnunin auglýsir nú eftir umsóknum fyrir styrki fyrir árið 2017.
Er þetta í annað skipti sem stjórn Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar hefur tekið ákvörðun um að auglýsa eftir umsóknum um styrki, en úthlutað var í fyrsta skipti árið 2015. Til úthlutunar er ein milljón króna.
„Sjóðsstjórnin leggur áherslu á verkefni sem tengjast ritverkum og ævi Gunnars Gunnarssonar og önnur verkefni sem samræmast hlutverki Gunnarsstofnunar,“ segir Skúli.
Menningarsjóður Gunnarsstofnunar var stofnaður árið 2013 af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þriggja manna stjórn stýrir sjóðnum en samkvæmt skipulagsskrá er tilgangur hans tvíþættur: annars vegar að renna stoðum undir starfsemi Stofnunar Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri með árlegum framlögum til hennar; hins vegar að styðja rithöfunda, listamenn, fræðimenn og námsfólk til verka er samræmast hlutverki Gunnarsstofnunar.
„Síðast þegar var úthlutað var mikil áhersla lögð á Gunnar og þau verkefni eru einnig sú sem hljóta forgang nú, en önnur sem tengjast austfirskum fræðum á einhvern hátt koma einnig vel til greina. Við viljum bara fá sem flestar og fjölbreyttastar umsóknir.“
Umsóknarfrestur Umsóknarfrestur rennur út 5. maí en úthlutun fer fram á fæðingardegi Gunnars, þann 18. maí. Allar upplýsingar er að finna á heimasíðu Gunnarsstofnunar,www.skriduklaustur.is.