Lundanum lýkur á morgun
„Þetta hefur gengið mjög vel og vakið athygli. Jafnframt höfum við notið mikils og góðs stuðnings hér í þorpinu,“ segir Elín Elísabet Einarsdóttir annar af höfundum fyrstu lundabúðar landsins þar sem varningurinn er framleiddur innan um sjálfa fyrirmyndina.Nýlundabúðin hefur starfað í rúma viku í Hafnarhólmanum á Borgarfirði. Með Elínu þar er Rán Flyering en saman mynda þær Teikniþjónustuna Jafnóðum. Síðasti dagur lundabúðarinnar er á morgun laugardag og munu þær stöllur síðan pakka saman á sunnudag og halda á vit nýrra ævintýra.
Fram kemur í máli Elínar Elísabetar að hún og Rán séu að hugsa um að hafa framhald á þessu næsta sumar. „Það hefur ekkert verið ákveðið í þeim efnum en við höfum fullan hug á að halda þessu áfram og erum með margar hugmyndir um slíkt. Við höfum meðal annars áhuga á að útvíkka þetta dæmi og setja í víðara samhengi.“