Lyfja flutt í nýtt húsnæði á Seyðisfirði
Útibú Lyfju á Seyðisfirði opnaði í gær í nýju húsnæði að Austurvegi 18. Gestkvæmt var þennan fyrsta dag. Fyrirtækið notaði tækifærið til að styrkja tvö félagasamtök í bænum.
Það voru Framtíðin, félag eldri borgara og félagsmiðstöðin Lindin, sem fengu sinn 100.000 króna styrkinn hvort.
„Við gerum þetta þegar við opnum ný útibú eða breytum að styrkja hina yngri og eldri,“ sagði Sigbjörn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lyfju.
„Það er búið að vera mikið að gera í allan dag. Á svona dögum þyrftum við helst tvo kassa,“ sagði Adda Birna Hjálmarsdóttir sem stýrir Lyfjuútibúunum á svæðinu.
Útibúið flutti ekki langt en nýja húsnæðið er stærra og bjartara en hið fyrra. Að auki er mun rúmbetri aðstaða fyrir starfsfólk á bakvið. Löng saga er af verslunarrekstri að Austurvegi 18.