Mælt með Neskaupstað í Lonely Planet

Neskaupstaður er einn þeirra þriggja staða á Íslandi sem fá meðmæli höfunda í grein í ferðaritinu Lonely Planet.

Í greininni eru þrír ferðarithöfundar fengnir til að mæla með óvæntum stöðum á Íslandi. Þau eru: Carolyn Bain, ferðabókahöfundur búsett í Reykjavík sem mælir með Hrísey, Egill Bjarnason, blaðamaður sem mælir með Ásbyrgi og James Taylor, ferðablaðamaður og ljósmyndari sem býr til skiptis í Reykjavík og Barcelona. Hann mælir með Norðfirði.

Hann segir Austfirði búa yfir fallegri og dramatískri strandlengju sem flest ferðafólk keyri bara í gegnum. Fyrir þá sem gefi sér tíma til að staldra við sé hvergi betra að finna fyrir smæð sinni gagnvart mikilfenglegri náttúrunni.

Þar sé úr fjölda fallegra þorpa að velja en eitt af þeim afskekktari, Neskaupstaður, dragi hann alltaf til sín. Þaðan sé hægt að sigla út á kajak eða bara ferðast um á tveimur jafnfljótum. Einföld gönguleið sé út í Páskahelli en fyrir þá harðari sé hægt að fara yfir í Hellisfjörð og skoða það sem eftir sé af hvalveiðistöðinni.

Hann gerir líka skemmtanalífið að umtalsefni, að oft sé líflegt á Beituskúrnum þar sem jafnvel sé dansað upp á borðum og sungið, einkum ef slegið er um tónlistarbingói.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar