Magni gefur út nýtt efni með ólíkum samstarfsaðilum

Borgfirski tónlistarmaðurinn Magni Ásgeirsson hefur komið víða við í tónlistinni að undanförnu. Ný lög og plötur með þremur mismunandi samstarfsaðilum hafa komið út í haust.

Rokksveitin Punks of Empire sendi í síðustu viku frá sér stuttskífuna Facade með fjórum lögum. Maðurinn á bakvið sveitina er Hörður Halldórsson en samstarf hans og Magna hófst fyrir um ári þegar hann hafði samband við Magna og bauð Borgfirðingnum að syngja þungarokkslag sem hann hafði samið. Fleiri lög hafa síðan bæst í flóruna.

Þá er nýkomin á Spotify plata sveitarinnar South Lane Basement Band sem Magni söng með. Platan kom upphaflega út árið 2014 og inniheldur bandarísk sálarlög sem sveitin gerði að sínum. Útvarpsstöðin KSOI í Iowa hafði á árinu samband við sveitina með ósk um að fá diskinn í spilum þar sem vel væri farið með lögin.

Magni er ekki eini Austfirðingurinn því Sævar Benediktsson, sem lengi bjó á Egilsstöðum, spilar á bassa í sveitinni. Hann á einnig lokalagið „Geta flogið.“

Að endingu syngur Magni dúett með Ágústu Evu Erlendsdóttur, sem einnig getur rakið ættir sínar til Borgarfjarðar, í laginu „Við gætum reynt.“ Með því fylgja þau eftir „Þegar storminn hefur lægt“ sem þau tóku saman fyrir nokkrum árum við miklar vinsældir. Vignir Snær Vigfússon samdi lagið en Sævar Sigurgeirsson textann.





Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.