Make it Happen: Bæjarstjórinn ruglaðist á ráðuneytum

sjs_ser_mih.jpg
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, leiðrétti Björn Ingimarsson, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, sem fór rangt með ráðuneyti ráðherrans við opnun hönnunarráðstefnunnar Make it Happen á Egilsstöðum í gær. Bæjarstjórinn var fljótur til svars.

Björn ruglaðist á ráðuneytum þegar hann kynnti Steingrím Jóhann til leiks í gær og sagði hann úr atvinnu- og iðnaðarráðneytinu. Ráðherrann byrjaði ávarpið að leiðrétta Björn og ítreka að hann væri ráðherra „atvinnuvega- og nýsköpunarmála.“

Björn svaraði fyrir sig í eigin ávarpi og sagði að honum fyrirgæfist eflaust ruglingurinn. „Hann er búinn að vera í hverju einasta ráðuneyti þessi maður!“

Steingrímur Jóhann útskýrði meðal annars áhrif kreppunnar á breyttan hugsunarhátt í íslensku samfélagi fyrir erlendum gestum ráðstefnunnar. „Við höfum tekið okkur stutt hlé frá því að trúa að við séum best í heimi.“

Segja má að Steingrímur hafi stolið senunni – og fleiru – í gærkvöldi. Þegar ávarpi hans var lokið tók hann með sér blöðin af ræðupúltinu. Þar voru hins vegar fleiri blöð en bara hans, einnig texti ungrar söngkonu á Norðfirði sem var næst í röðinni.

„Steingrímur, viltu skila henni textablöðunum,“ sagði undirleikarinn Jón Hilmar Kárason þegar þau stigu á sviðið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar