Máluðu regnbogagangbraut á Stöðvarfirði

Gangbrautin yfir götuna Hólaland á Stöðvarfirði var um síðustu helgi máluð í regnbogalitunum til að vekja athygli á réttindabaráttu hinsegin fólks. Formaður Hinsegin Austurlands segir mikilvægt fyrir einstaklinga í minni byggðarlögum að finna stuðning.

„Hinsegin Austurland hefur hvatt til þess að götur eða gangbrautir séu málaðar í regnbogalitunum. Fjarðabyggð hefur verið dugleg við að mála sínar gangbrautir en það átti eftir að mála á Stöðvarfirði.

Sveitarfélagið leitaði til okkar að taka þátt í þessu og það hitti vel á þar sem bæjarhátíðin Stöð í Stöð var í fullum gangi, en við höfum leitast eftir að taka þátt í slíkum hátíðum,“ segir Natalia Ýr Jóhannsdóttir Wróblewska, formaður Hinsegin Austurlands.

Hún var meðal þeirra sem máluðu gangbrautina en einnig lögðu hönd á plóg Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri, bæjarfulltrúarnir Arndís Bára Pétursdóttir, Birgir Jónsson og Kristinn Þór Jónasson og Valborg Ösp Warén, verkefnastjóri byggðaþróunarverkefnisins Sterkari Stöðvarfjarðar.

„Tilgangurinn regnbogabrautanna er að sýna að við séum til og séum til staðar. Það vita ekki allir af félaginu okkar en ég held að það sé mikilvægt fyrir einstaklinga í litlum bæjarfélögum að vita af því. Þá erum við ekki búin að ná fram öllu sem þarf í réttindabaráttunni, þótt við séum að mörgu leyti heppin hér á Íslandi,“ segir Natalia.

Fulltrúar félagsins hafa mætt á nokkrar bæjarhátíðir á Austurlandi í sumar og fleiri eru framundan. „Við erum gjarnan með sölubása þar sem við erum bæði með stærri fána, því við hvetjum fyrirtæki og stofnanir til að flagga regnbogafánanum, en síðan líka minni fána fyrir einstaklinga.

Aðaltilgangurinn er þó að vera sýnileg þannig fólk geti komið til að heilsa okkur, skrá sig í félagið eða spyrja spurninga. Við viljum tala við sem flest fólk.“

Natalía tók við sem formaður að loknum aðalfundi félagsins í maí. „Við leggjum áherslu á sýnileikann í sumar, síðan förum við í að meta frekar stefnuna. Við ætlum að taka þátt í Hýrri halarófu, gleðigöngunni á Seyðisfirði, með stæl í ágúst.“

Mynd: Tara Ösp Tjörvadóttir

 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.