„Man eftir rauða bænum fyrir austan úr kosningasjónvarpinu“
Heimildamyndin Litla-Moskva, sem fjallar um sögu sósíalistanna sem voru við völd í Neskaupstað fram eftir 20. öldinni, verður sýnd í Egilsbúð um helgina. Leikstjórinn segist spenntur fyrir að sýna myndina eystra.„Það er mikil tilhlökkun að sýna myndina í Neskaupstað. Ég byrjaði á myndinni fyrir fimm árum og á þessum tíma hef ég kynnst dálitlu af fólki þar þannig þetta snýst bæði um að sýna afurðina og hitta félagana,“ segir Grímur Hákonarson, leikstjóri.
Þegar Austurfrétt hafði tal af Grími var hann staddur á Seyðisfirði við að klippa næstu mynd sína ásamt Kristjáni Loðmfjörð en Grímur er þekktastur fyrir kvikmynd sína Hrúta sem sýnd hefur verið víða um heim við mikið lof.
Grímur segir að áhugi sinn á stjórnmálunum í Neskaupstað hafi kviknað sem barn. „Ég man eftir eftir rauða bænum fyrir austan frá því ég var krakki að fylgjast með kosningasjónvarpinu,“ rifjar Grímur upp og bætir við að allir frambjóðendur Alþýðubandalagsins hafi verið með skegg.
Vildi varðveita söguna
Hann hafi síðan haft áhuga á stjórnmálum og lesið sögu sósíalisma og kommúnisma sem hafi kveikt hugmyndina um að fara austur og skoða söguna.
„Ég kom austur sumarið 2013 og sá að hér var góður efniviður. Þetta er saga sem hefur dálítið gleymst og mér fannst það skylda mín að gera eitthvað í því.“
Í myndinni er meðal annars viðtal við Guðmund „Stalín“ Sigurjónsson sem lést í desember 2014. „Hann var orðinn aldraður og hafði fengið hjartaáfall áður en ég kom austur þannig ég dreif mig til að taka hann upp. Guðmundur var enn hress og minnugur og viðtalið við hann er eitt það merkilegasta í myndinni.“
Fólk hefur skoðanir á veruleikanum
Myndin hefur verið í sýningum í Bíó Paradís í Reykjavík um mánudag og fengið bæði fína aðsókn og góða dóma að sögn Gríms. Viðbrögð Norðfirðinga hafa verið misjöfn og hefur Grímur meðal annars skipst á skoðunum við Hjörleif Guttormsson, fyrrum þingmann, í fjölmiðlum.
„Þeir sem þekkja söguna vel finnst sumum að of miklu sé sleppt. Það má ekki búast við algjörri sagnfræði. Myndin er bæði sagnfræðileg heimildamynd og listræn mynd þar sem reynt er að lýsa stemmingunni í bænum í gegnum karaktera sem ég tek upp.
Þegar þú fjallar um veruleikann má búast við að fólk hafi mismunandi meiningar en í leiknum myndum er hægt að skýla sér bakvið skáldskapinn. Ég hef hins vegar séð ágætar viðtökur frá heimafólki í gegnum samfélagsmiðla þannig ég á von á að fólk í bænum mæti.“
Sýnd í ríkissjónvarpinu í Slóvakíu
Eftir sýningarnar í Neskaupstað skýrist hvar annars staðar í heiminum myndin verður sýnd en henni hefur þegar verið tryggð alþjóðleg dreifing.
„Ég var með meðframleiðanda frá Slóvakíu sem ég hitti á kvikmyndahátíð og sýndi áhuga á sögunni. Við fengum dálítið af styrkjum þaðan og hún verður sýnd í ríkissjónvarpinu bæði þar og Tékklandi. Það kom mér óvart því ég hélt að þetta væri bara staðbundin stjórnmálasaga.“
Myndin verður sýnd föstudags- og laugardagskvöld í Egilsbúð klukkan 20:00.
Guðmundur „Stalín“ Sigurjónsson í Litlu-Moskvu. Mynd: Grímur Hákonarson