„Man ekki eftir mér öðruvísi en syngjandi“

Ína Berglind Guðmundsdóttir úr Fellabæ sigraði nýverið í söngkeppni Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi með frumsömdu lagi.

Í keppninni syngja ungmenni á aldrinum 14-16 ára og var Ína Berglind annar tveggja fulltrúa Austurlands að þessu sinni. Flestir keppendur syngja lög eftir þekkt tónlistarfólk en á milli leynist frumsafnið efni.

Ína Berglind, sem keppti fyrir félagsmiðstöðina Nýung á Egilsstöðum, flutti lag sitt „Tilgangslausar setningar.“ Ína Berglind hefur ekkert gefið út enn opinberlega en hefur komið fram við ýmis tækifæri á Austurlandi síðustu mánuði og veðrur meðal annarra á Skógardeginum mikla á Hallormsstað á morgun. Hún hefur einnig sett stefnuna á upptökur í Stúdió Síló.

„Ég samdi lagið fyrir nokkru síðan. Ég er búin að semja lengi og á töluvert af lögum en ég hef reyndar aðallega verið að gera það fyrir mig en ekki spilað mikið af því fyrir aðra. „Tilgangslausar setningar“ fjallar um komment sem festast stundum dálítið inni í manni og maður losnar ekki við. Þetta er byggt á persónulegri reynslu minni en ég vil samt ekki fara neitt nánar út í hvað það merkir.

Annars eru langflest lögin mín byggð á einhverri reynslu því maður er að reyna að koma hugsunum sínum á blað. Persónulegustu lögin eru yfirleitt alltaf í rólegri kantinum.“

Tónlistin hefur lengi verið helsta áhugamál Ínu. „Ég man ekki eftir mér öðruvísi en syngjandi og ég hef verið í tónlistarskóla líka frá því ég byrjaði í skóla. Ég er að æfa á gítar í Tónlistarskólanum í Fellabæ og söng í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum um þessar mundir.

En svo spila ég á fullt af öðrum hljóðfærum líka eins og píanó, ukelele og ég kann eitthvað fyrir mér á bassa þó ég sé kannski ekki mjög góð á hann enn þá. Önnur áhugamál eru ekki mikið til staðar. Ég hafði um tíma áhuga á íþróttum líka en tónlistin átti bara meira í mér og þar fékk ég miklu meiri útrás en í íþróttunum og fæ enn þann dag í dag.“

Aðspurð um hvaðan þessi mikli tónlistaráhugi komi og hvort foreldrarnir deili þeim áhuga með henni hlær Ína Berglind dátt. „Nei, áhuginn kemur ekki frá þeim og ég satt best að segja veit ekki hvaðan ég hef þennan áhuga. Ég veit til þess að langafi minn var mikið í tónlist á sínum tíma en hvernig minn áhugi kviknaði veit ég bara ekki.“

Ína Berglind er annar Austfirðingurinn til að vinna keppnina. Anya Hrund Shaddock frá Fáskrúðsfiðri varð fyrst til þess árið 2017.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar