„Mannamótin skila heilmiklu“

Hin árlega kaupstefna markaðsstofa landshlutanna, Mannamót, stendur yfir í Kórnum í Kópavogi langt fram á dag. Þar kynna 35 austfirsk fyrirtæki ýmis ferðaþjónustutækifæri. Annar eigandi Blábjargar á Borgarfirði eystra segir engan vafa leika á að mót sem þessi skipti máli.

Í tilefni af deginum voru tekin upp viðtöl við aðila úr öllum landshlutum um þeirra reynslu af Mannamótinu gegnum tíðina. Fyrir hönd Austurlands komu þar fram þær Alexandra Tómasdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú og Auður Vala Gunnarsdóttir, eigandi Blábjargar og KHB brugghúss. Þær stöllur lengi sótt þennan viðburð og segja hafið yfir allan vafa að slík mót skipti ferðaþjónustufyrirtæki miklu máli.

Mér finnst mikilvægt að mæta á svona viðburði og sérstaklega þar sem þeir eru haldnir af íslenskum aðilum og reynslan sýnir að þetta skilar bara heilmiklu,“ segir Auður Vala Gunnarsdóttir eigandi Blábjargar Resort, sem sótt hefur Mannamótin um margra ára skeið. „Fyrir mig þá kem ég venjulega heim með fullt af blöðum og hef í kjölfarið samband við alla þá sem komu til okkar og þetta hefur alveg skilað okkur viðskiptum og nýjum viðskiptasamböndum. Plús auðvitað að það koma aðrir gestir af höfuðborgarsvæðinu og annars staðar frá og þeir sjá kannski tækifæri í að ferðast um á Íslandi og hvað Ísland hefur upp á að bjóða.

Mikil samheldni austanlands

Auður segir mun meiri samheldni meðal austfirskra þátttakenda á Mannmótinu en samkeppni. „Ég vil segja eins og fyrir Austurland að þá er ótrúlega mikil samheldni á Austurlandi og bara að koma saman með mínu fólki úr mínum fjórðungi er bara dásamlegt. Það er til dæmis komin hefð á að áður en við byrjun þá söfnumst við öll saman og skálum í landa, blásum okkur byr í brjóst og náum svona pínulítið í íþróttaandann. Þetta þjappar okkur líka mikið saman. Við erum öll að vinna við það sama og viljum öll gera fjórðunginn okkar sýnilegan og við erum einfaldlega best.

Margt sem enginn veit af fyrir austan

Alexandra Tómasdóttir, hefur sjálf tíu ára reynslu af slíku Mannamóti og það bæði megin borðsins. „Ég kom hérna í fyrsta skiptið sem gestur fyrir tíu árum. Þá var ég að vinna hjá ferðaskrifstofu og í rauninni í kjölfarið opnuðust fullt af nýjum dyrum og nýjum viðskiptasamböndum. Í rauninni er þetta gott tækifæri til að sjá hvað landshlutarnir hafa upp á að bjóða því það er í raun oft erfitt að koma sér á framfæri og þetta opnar margar dyr. Það hefur verið gríðarlegur vöxtur hin síðustu ár og við erum með metskráningu fyrirtækja hér með alls 35 fyrirtæki frá Austurlandi. Við erum bara svo gríðarlega mikið inni. Við höfum verið svona svolítið á eftir mörgum landshlutum í að uppgötvast ef svo má segja en við erum með endalaust af gönguleiðum, víðáttum og erum ekki með þennan massatúrisma. Skíðasvæðin okkar líka og Íslendingar vita varla af þessu. Þetta er, að mínu mati, bestu skíðasvæði landsins og þessar gönguleiðir, það er bara tímaspursmál hvenær þetta uppgötvast almennilega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar