Maríuerla liggur á eggjum sínum í beinni
Hægt er að fylgjast með maríuerlu, sem gert hefur sig heimakomna í iðnaðarhúsnæði í Fellabæ, liggja á sex eggjum sínum í beinni vefútsendingu.Maríuerlan er í húsnæði Krossdal Gunstock/PES ehf., „Það hefur komið fyrir að einn og einn fugl slæðist inn á verkstæðið hjá okkur.
Ég hafði heyrt hljóð síðustu tvær vikur en svo sá ég maríuerlurnar koma ofan af timburstafla í eitt skiptið. Þá fór ég að gá betur og sá að parið var byrjað að gera sér hreiður.
Síðan fór ég að skoða málið betur á föstudag. Þá sá ég fullgert hreiður með fjórum eggjum,“ segir Kristján Krossdal.
Kristján, sem er mikill fuglaáhugamaður, tók sig til og setti vefmyndavél upp við hreiðrið. Útsending úr henni er aðgengileg á YouTube. „Ég hef mikinn áhuga á fuglum og hef gaman af að fylgjast með þessu sjálfur. Fyrsta sem strákarnir okkar gera á morgna er að kveikja á sjónvarpinu og kíkja á Maríu,“ segir hann.
Í fyrri nótt bættist fimmta eggið við og síðastliðna nótt það sjötta. Hægt er að fara tólf tíma aftur í tímann í streyminu og má því finna síðasta varpið þegar þetta er ritað.
Maríuerlan liggur á eggjum sínum í 13 daga og svo eru ungarnir aðrar tvær vikur í hreiðrinu. Kristján stefnir því á að halda útsendingunni gangandi meðan fuglarnir eru í hreiðrinu. „Í gær rak reyndar hundurinn okkar nefið í reset-takkann á tölvunni og þá þurftum við að byrja streymið upp á nýtt,“ skýtur hann að.
Hann kveðst aðeins hafa séð kvenfuglinn við hreiðrið síðustu daga en segir hana rólega inni á verkstæðinu. „Hún flýgur stundum upp í gluggann og horfir á mig áður en hún fer aftur á hreiðrið. Hún er ótrúlega skemmtileg.“