ME áfram í Gettu betur
Menntaskólinn á Egilsstöðum tryggði sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, með 24-22 sigri á liði Fjölbrautaskólans í Garðabæ. ME hafði yfirhöndina allan tímann þótt litlu munaði að illa færi í lokin.
ME var yfir eftir hraðaspurningar 15-13 og sá munur hélst í gegnum fyrstu vísbendingaspurningarnar. Garðbæingar minnkuðu muninn í eitt stig í fyrstu bjölluspurningar en þá hrukku ME-ingar í gang og náðu mest sex stiga forskoti.
Það höfðu þeir þegar tvær bjölluspurningar voru eftir. Garðbæingar tóku þær báðar og minnkuðu muninn í 24-20. Í svokallaðri spjaldaspurningu fengu Garðbæingar tvö stig en ME-ingar ekkert.
Þríþrautin gat því ráðið úrslitum, en þar fást þrjú stig eða ekkert. ME-ingar tóku bjölluna en svar þeirra var ekki fullnægjandi. Það kom ekki að sök því FG-ingar svöruðu spurningunni vitlaust og ME því komið áfram.
Liðið skipuðu Jóhann Atli Hafliðason, Beruneshreppi, Arnar Jón Guðmundsson, Geithellnahreppi og Hrólfur Eyjólfsson, Hlíðarhreppi.
Hrólfur vakti sérstaka athygli í gærkvöldi en það að hafa alist upp í Danmörku færði honum fjölda stiga. Hann svaraði einnig á dönsku og þegar spyrill þáttarins benti honum á að venjan væri að svara á íslensku spurði Hrólfur hvort hann gæti þá fengið orðabók.