„Með góðri samvinnu er hægt að gera mikið fyrir lítið“
Heita má að fullsetið hafi verið í félagsheimilinu Hjaltalundi í Hjaltastaðaþinghá á sunnudaginn var þegar Hollvinafélag Hjaltalunds og Kvenfélagið Björk fögnuðu því að komið er nýtt þak á húsið, stiginn verið endurbættur og eldhúsið nú orðið formlega viðurkennt lögum samkvæmt.
Alls rúmlega 80 gestir þáðu boð Hollvina- og Kvenfélagsins og á borðum dýrindis kökur og meðlæti fyrir alla þá sem tóku þátt í fögnuðinum. Áfanginn stór því þak hússins hafði lekið um langan tíma, eldhúsið orðið barn síns tíma og stiginn helst til brattur og stóðst ekki nútímakröfur. Allt verið fært til betri vegar.
Að sögn Sólveigar Björnsdóttur frá Kvenfélaginu var mæting afar góð og þá sérstaklega af brottfluttum sem komu og nutu stundarinnar.
„Við vorum sannarlega að fagna fleiru en nýju þaki. Nú erum við komin með vottað eldhús og endurbættur stiginn sem þýðir að hann uppfyllir reglur og auðveldara að fara um. Það er þó ekki þar með sagt að vinnunni sé lokið. Það er orðið aðkallandi að skipta um gluggana í húsinu og sömuleiðis er salargólfið orðið lélegt. Þá þarf að fara að mála salarveggina sem eru farnir að láta á sjá.“
Sólveig segir að styrkur frá sveitarfélaginu Múlaþingi hafi skipt sköpum. Sá styrkur var aðeins fyrir nýtt þak en með því að fara sparlega með peningana hafi tekist að láta þá endast til fleiri verka.
„Við fengum pening í þakið og við gátum unnið þetta svo sparlega eins og með matinn, fengum lánað hús undir smiðina og fleira. Þannig náðum við að spara svo mikið að við áttum fyrir nýju og endurbættu eldhúsi líka.“
Vel setið á Þakhátíð Hjaltalunds á sunnudaginn var. Mynd María Guðbjörg Guðmundsdóttir