Með keramik á heilanum

Esther Ösp Gunnarsdóttir hefur prófað flest sem talist getur föndur eða handavinna. Hún hefur nú hafið framleiðslu og sölu á vörum úr keramiki.

„Ég hef alltaf haft gaman af allskyns handverki, hönnun og bardúsi. Ég lærði grafíska hönnun, hef lengi tekið ljósmyndir, gert upp húsgögn og prófað flestallt sem talist getur föndur eða handavinna. Ég hannaði og seldi hárspangir fyrir allnokkrum árum.

Ég hef lengi prjónað og fyrir um tíu árum byrjuðum við Bylgja, vinkona mín, að hanna saman og selja prjónauppskriftir. Fyrir nokkrum árum gáfum við svo út „Prjónadagbókina mína“,“ segir Esther sem snéri sér að keramikinu fyrir um tveimur árum.

„Þá lét lét ég verða af því að prófa keramik í fyrsta sinn þegar ég frétti af námskeiði á Egilsstöðum. Ég fann nokkuð fljótlega að leirinn höfðaði mjög til mín og ég hef eiginlega verið með hann á heilanum síðan.“

Hún hefur fyrir nokkru komið sér upp vinnuaðstöðu í bílskúrnum heima, þar sem hún vinnur nú allar keramikvörur sínar. Þær vörur eru eins misjafnar og þær eru margar og er ekkert eitt sérstakt þema sem hún vinnur með. Hún flakkar á milli þess að gera nytjahluti eins og bolla, diska og skálar og upp í jólaskraut og mest selur hún beint af vef sínum andceramics.is

„Ég er einhvern veginn ennþá á þeim stað að ég á eftir að prófa svo margt í leirnum að ég er alltaf að gera eitthvað nýtt eða beita nýrri aðferð eða efnum. Stundum byrja ég á einhverju en enda með allt annan hlut í höndunum en ég lagði af stað með í kollinum.

Það er mjög skemmtilegt og hollt fyrir mig. Það eina sem mig vantar tilfinnanlega eru fleiri klukkustundir í sólarhringinn, því mér finnst hugmyndirnar eiginlega bara flæða út um eyrun á mér þessa dagana.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.