Meistari Megas á Hammondhátíð
Megas og Senuþjófarnir og Egill Ólafsson eru meðal þekktustu listamannanna sem fram koma á Hammondhátíð á Djúpavogi sem hefst í kvöld. Fyrsta kvöldið er tileinkað austfirskum tónlistarmönnum.
Opnunaratriðið í kvöld er með heimastúlkunni Írisi Birgisdóttur og Tómasi Jónssyni. Á eftir þeim koma Norðfirðingarnir í Coney Island Babies og Þorleifur Guðjónsson ásamt Fjórðungslandsliði Austurlands.
Gítarleikarinn Björgin Gíslason mætir til leiks á morgun með kjarnann úr dagskrá sem hann flutti á sextugsafmælistónleikum sínum fyrir skemmstu. Á laugardag eru það Megas og Senuþjófarnir áður en Egill Ólafsson og Jónas Þórir ljúka hátíðinni með tónleikum í Djúpavogskirkju á sunnudag.
Á laugardag klukkan 14:00 verður einnig boðið upp á Hammondkennslu á Hótel Framtíð. Nánari upplýsingar um hátíðina eru á Hammondvef Djúpavogshrepps.