„Mér dugar ekki bara eitt lífskeið“

„Mér sjálfum og ég tel öllum þykir þetta skipta mjög miklu máli og lífga uppá bæinn þar sem bæjarbúar og nágrannar okkar geta hist og skemmt sér saman,“ segir Kristinn Þór Jónasson, forsprakki bæjarhátíðarinnar Útsæðisins á Eskifirði sem fram fer um helgina. Kristinn Þór er í yfirheyrslu vikunnar.


„Það hafði alltaf blundað í mér og nokkrum öðrum hérna að halda uppá afmælisdag Eskifjarðar ár hvert með smá viðburðum. Við fengum svo tækifærið þegar Eskifjörður varð 230 ára, þá tókum við skrefið létum reyna á hvernig það myndi ganga. Afmælið gekk svo ljómandi vel og fólk var ánægt þannig að við ákváðum að halda þessu áfram og gera að árlegum viðburði,“ segir Kristinn Þór en þetta er þriðja árið í röð sem Útsæðið er haldið þessa helgi á Eskifirði.

Fullt nafn: Kristinn Þór Jónasson.

Aldur: 44 (nokkra daga í viðbót).

Starf: Verkstjóri hjá Eimskip við Mjóeyrarhöfn.

Maki: Tinna Rut Ólafsdóttir.

Börn: Tvö.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Föstudagur, tími til að kúpla sig úr vinnugírnum og finna út hvað í ósköpunum ég eigi að gera, smíða, bralla, eða stofna um helgina.

Hver er þinn helsti kostur? Þolinmæði og að gefast ekki upp þó maður sjái fram á vera í algjöru rugli og með of mikið í fanginu (way over my head.. hvernig sem það er þýtt á íslensku).

Hver er þinn helsti ókostur? Of mikil þolinmæði, þrjóskur.

Er líf eftir dauðann? Ég vil trúa því og það verður bara að vera, því mér dugar ekki eitt lífskeið fyrir allt sem mig langar að gera og framkvæma.

Með hvað lékstu þér mest sem barn? Bíla, bíla og aftur bíla. Maxbox-bíla og aftur Maxbox-bíla.

Mesta undur veraldar? Trump (og ekki á góðan hátt).

Lamb eða naut? Lamb.

Duldir hæfileikar? Get verið líkamlega á einum stað, en heilinn einhverstaðar aaaaaallt annarsstaðar að brainstorma (ekki alltaf kostur).

Mesta afrek? Að halda geðheilsunni stundum.

Hvernig drekkur þú kaffið þitt? Drekk ekki kaffi.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Þurrka leirtau. Læt það standa til það þornar.

Draumastaður í heiminum? Liggja uppí fjallhringnum fyrir ofan Eskifjörð með bláber í annari, krækiber í hinni og bara njóta.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika, sanngirni og sýna mér þolinmæði.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á heimilinu? Fyrir framan eldavélina eða tölvuna að skipuleggja/teikna gæluverkefnin.

Hvað er rómantík? Líða vel með hvort öðru og njóta hverrar stundar saman.

Ef þú yrðir handtekinn án skýringa, hvað myndu vinir þínir og fjölskylda halda að þú hefðir gert af þér? Fundið nýjan Keiko.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Pabbi og afar mínir.

Ef þú þyrftir að dansa til að bjarga lífinu, undir hvaða lagi myndirðu vilja dansa? What is love með Haddaway.

Hvaða ósið hefur þér reynst erfiðast að hætta? Coke-sukki.

Hvað ættu allir að prófa að minnsta kosti einu sinni í lífinu? Koma á Eskifjörð.

Setur þú niður útsæði? Hef sett niður tvö útsæði, þau komu mjög vel út.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar