„Mér finnst þetta alltaf jafn flott verk“

Í vor voru 50 ár liðin frá því að verslunarhús Kaupfélags Héraðsbúa (KHB), sem nú hýsir Nettó, var tekið í notkun. Jafngamalt er hið mikla listaverk Hrings Jóhannessonar á útvegg hússins. Magnús Sigurðsson, múrarameistari á Egilstöðum, vann sumarlangt við að brjóta niður steina í verkið.

„Við sátum þar sem móttaka pósthússins er í dag. Áður en sú viðbygging var reist voru þar 2-3 braggar. Við sátum úti í makindum allt sumarið þegar veðrið var gott og fórum inn þegar það rigndi.

Grjótinu var keyrt í hrúgur og við brutum það í hnefastóra hnullunga, reyndum að hafa þá í sem jafnastri stærð. Við vorum með múrhamra, axir með hamarshaus nema að blaðið snýr þvert á skaftið. Hringur kom til okkar í byrjun sumars til að segja hvernig við ættum að gera þetta. Steinarnir voru flokkaðir í poka eftir litum. Síðan voru þeir geymdir í sekkjum yfir veturinn eins og kartöflur.“

Hringur viðurkenndi aldrei að verkið væri af Lagarfljótsorminum


Þetta segir Magnús þegar hann rifjar upp sumarið 1973 þegar hann tók þátt í að brjóta niður steinana sem notaðir voru í verkið sem kallast „Lagarfljótsormurinn“. Það er merkt með því nafni, þótt Magnús vilji meina að Hringur hafi aldrei verið tilbúinn að viðurkenna að það væri af orminum í fljótinu. Í sögu KHB segir að Hringur aðeins aðeins sagt að veggurinn krefðist langrar myndar og ormar væru aflangir.

Á merkingunni segir einnig að verkið sé gert árið 1974. Verslunarhúsnæði Kaupfélags Héraðsbúa opnaði 26. apríl 1974 en í heimildum frá þeim tíma kemur fram að klára eigi verkið um sumarið. Magnús var þá komin í önnur verkefni en fylgdist með þegar steinunum var raðað niður í hellurnar sem síðan voru límdar upp á vegginn. „Ég man eftir þegar hann var að steypa en ég var ekki þar dag eftir dag eins og sumarið áður þegar ég var að brjóta niður steinana.“ Það var enda nóg að gera á uppgangsárum bæði Egilsstaða og Kaupfélagsins. Þegar verslunarhúsnæðið var tilbúið tók við bygging mjólkurstöðvarinnar og gerð tjaldsvæðisins.

Hringur Jóhannesson var þekktur íslenskur listamaður, nefndur einn af helstu fulltrúum ljóðræns nýraunsæis í íslenskri myndlist á sjöunda og áttunda árartugnum. Hann starfaði við Myndlistaskólann í áraraðir. Bróðir hans var Völundur Jóhannesson, yfirsmiður hjá Trésmiðju Kaupfélagsins sem byggði lykilbyggingar KHB. „Völundur var óragur við að ráða í vinnu polla eins og okkur, varla fermdir. Við vorum oft 8-10 strákar og það var mjög gaman í þessum hópi,“ rifar Magnús upp.

Steinarnir fengnir víða af Austurlandi


Verkið er mikið umleikis, um 40 metra langt og tveir metrar á hæð. Þegar horft er í það má finna steina í ýmsum litum, rauða, grænbláa og ljósa. Grjótið kom víða af Austurlandi. „Ég sá einhvern tíma að alls hefðu verið fengir steinar af átta stöðum af Austurlandi. Rauðu steinarnir koma til dæmis úr Rauðuskriðu í Hamarsfirði, ég er nokkuð viss um að grænbláu steinarnir komi úr Álftafirði og svo eru steinar úr Skriðdal og Njarðvík,“ segir Magnús sem enn starfar við múrverk hjá MVA.

Reynslan af því að hafa tekið þátt í gerð verksins á Egilsstöðum nýttist Magnúsi og fleiri uppöldum Egilsstaðabúum síðar. „Ég vann með Hrólfi Gunnlaugssyni og Braga Guðjónssyni heilt sumar í Reykjavík að setja upp verk eftir Lilju Pálmadóttur. Það á vegg á Gömlu óperunni sem snýr inn í port og er eiginlega bara sýnilegt af 101 Hóteli. Það er úr 42 kúlum sem hver er 1,4 metrar í þvermál og er þykkt inn í vegginn. Við vissum að þetta tæki tíma og fara þyrfti eftir því sem listamaðurinn segði, hann gerir verkið, við hjálpum bara til.“

Hringur, Gaudi og Gerður


Magnúsi þykir vænt um verkið utan á Kaupfélagshúsinu. „Mér finnst það alltaf jafn flott. Stundum hef ég óttast að einhver átti sig ekki á hvað þetta er merkilegt verk og máli yfir það. Hringur var frægur listamaður og sennilega er þetta með stærri mósaíkverkum úr náttúrusteini hérlendis,“ segir Magnús og bætir við að það að taka þátt í og fylgjast með gerð verksins hafi vakið listáhuga hjá honum.

„Ég hef gaman af að skoða svona myndir. Eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert er að skoða hús og garð (Antoni) Gaudi í Barselónu. Ég hef líka reglulega skoðað verk Gerðar Helgadóttur á vegg Tollstjórahússins í Reykjavík, þótt það sé allt öðruvísi. Það má segja að Hringur hafi kveikt hjá mér áhugann á mósaíklist.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar