Mest ánægja með sumarveðrið á Austurlandi
Yfir 80% íbúa á Austur- og Norðausturlandið eru ánægðir með veðrið síðastliðið sumar. Það sama verður ekki sagt um íbúa annarra landshluta.Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR. Þar segjast 82% þeirra sem taka afstöðu á Austur- og Norðausturlandi vera ánægðir með sumarveðrið, þar af 40% mjög ánægðir.
Í öðrum landshlutum fer ánægjan mest í 30%, minnst er hún 14% á Suðurlandi. Alls eru 31% landsmanna ánægðir með veðrið í sumar.
Konur eru ívið ánægðari með veðrið en karlar, 37% kvenna lýstu sig ánægðar en 25% karla. Þá var eldra fólk ánægðara með sumarveðrið en það yngra. Í flokknum 68 ára og eldri sögðust 40% ánægð með sumarveðrið en 22% í flokki 18-29 ára.
MMR spurði einnig hvort fólk hefði verði ánægt með sumarfríið sem 88% landsmanna reyndust ánægð með. Munurinn var ekki mikill milli landshluta, helst virtust Sunnlendingar þó óánægðir.
Þar voru eldri aldurshópar líka ánægðari. 94% 68 ára og eldri sögðust ánægð með fríið á móti 80% 18-29 ára.