Mikið um að vera hjá Blæ
Dagana 13.-15. júní stóð hestamannafélagið Blær fyrir æskulýðsdögum á félagssvæði sínu að Kirkjubólseyrum í Norðfirði. Er óhætt að segja að þar hafi verið líf og fjör en rúmlega 40 börn og unglingar tóku þátt í ár og voru með aðstandendum þeirra um 100 manns á svæðinu þessa daga. Í dag og á morgun fagnar Blær fjörtíu ára starfsafmæli félagsins.
Ásdís Helga Sigursteinsdóttir tamningamaður og reiðkennari var með reiðkennslu, þá var einnig kennd umhirða hesta og reiðtygja, leiklist, föndrað með hrosshár og ýmislegt úr náttúrunni, farið í sund, óvissuferðir og leiki af ýmsum toga.
Æskulýðsnefnd Blæs stóð fyrir dagskránni og naut aðstoðar foreldra og aðstandenda þátttakendanna
auk félaga úr hestamannafélaginu. Meðan á æskulýðsdögunum stóð gistu margir á svæðinu en hestamannafélagið sá þátttakendum fyrir fæði með liðsstyrk ýmissa fyrirtækja, enda dagskráin þétt. Ekkert gjald var tekið fyrir þátttöku á æskulýðsdögunum frekar en fyrr, en það hefur um árabil verið metnaðarmál fyrir Blæ að standa fyrir æskulýðsdögum sem þessum og eru þeir hápunkturinn á öflugu æskulýðsstarfi félagsins.
Hestamannafélagið Blær stendur nú fyrir reiðnámskeiðum á svæði félagsins undir stjórn Ásdísar Helgu en um komandi helgi, 19. og 20. júní , verður afmælismót Blæs en félagið fagnar 40 afmæli á þessu ári.