Mikilvægt að konur miðli sinni reynslu af atvinnulífinu

Alcoa Fjarðaál í samstarfi við Tengslanet austfiskra kvenna (TAK) hefur boðið til súpufundar á föstudaginn um helgun í lífi og starfi á aðalskrifstofum Fjarðaáls.



TAK eru samtök kvenna á Austurlandi með það að markmikið að sameina konur fjórðungsins, efla samstöðu þeirra, þekkingu og samstarf.

TAK heldur reglulega fræðsluviðburði, umræðufundi og fyrirtækjaheimsóknir. Á hverju er einnig blásið til námskeiðs og þann 7. maí mun Edda Jónsdóttir markþjálfi fjalla um fjárhagslega valdeflingu kvenna.


Stuttar hádegisheimsóknir í vetur

María Kristmundsdóttir, sérfræðingur hjá Alcoa Fjarðaáli, hefur verið innan samtakanna frá upphafi og situr nú í stjórn þeirra.

„TAK hefur verið í samstarfi við Fjarðaál undanfarin ár og reglulega heimsótt fyrirtækið. Á þessu starfsári var ákveðið að bjóða heim í stuttar hádegisheimsóknir þar sem konur hjá Fjarðaáli segja frá sínum störfum, en þar starfa konur í fjölbreyttum og áhugaverðum störfum sem deila af þekkingu sinni til fróðleiks fyrir austfirskar konur.

Í síðustu heimsókn í nóvember sagði Svanbjörg Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur, frá því hvernig Fjarðaál stuðlar að bættri heilsu starfsmanna með heilsuvernd og heilsueflingu,“ segir María.

Í heimsókninni á föstudag mun Sigrún Birna Björnsdóttir, fræðslustjóri í mannauðsteymi Alcoa Fjarðaáls, fjalla um helgun í lífi og starfi út frá teymishugsun, jákvæðri sálfræði og núvitund. Mannauðsteymið hefur undanfarin ár viðað að sér þekkingu og reynslu varðandi helgun starfsmanna enda er hún einn af lykilmælikvörðum um árangur fyrirtækisins.


Mikilvægt samstarf

María segir samstarf TAK og Fjarðaáls mikilvægt. „Það styrkir okkur Fjarðaálskonur í okkar störfum, en stór vinnustaður eins og Fjarðaál hefur miklu að miðla til samfélagsins og TAK er góður vettvangur til þess.

Sú þekking og reynsla sem konur hafa af atvinnulífinu hér á Austurlandi er dýrmæt og það er mikilvægt að það sé tengslanet eins og TAK þar sem konur geta rætt og miðlað sinni reynslu. Þannig varðveitum við með vissum hætti þekkingu okkar af fjölbreyttu atvinnulífi.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar