Orkumálinn 2024

„Mikilvægt að segja söguna víðar en í borginni“

Sviðslistahópurinn Fullorðið fólk sýnir leikverkið Stelpur og strákar á Seyðisfirði og Eskifirði í lok vikunnar. Aðalleikarinn segir um sterkt verk að ræða sem eigi erindi til fólks um allt land.

Verkið er einleikur í höndum Bjarkar Guðmundsdóttur, sem útskrifaðist sem leikkona frá Listaháskóla Íslands í fyrra. Leikstjórinn er Annalísa Hermannsdóttir sem útskrifaðist með gráðu í sviðslistum frá skólanum á sama tíma.

„Þetta var nokkuð stór biti fyrir nýútskrifaða leikkonu en hefur gengið ótrúlega vel. Þetta er mikilvæg saga sem þarf að segja,“ segir Björk.

Höfundur verksins er Dennis Kelley en Carey Mulligan, ein fremsta leikkona Breta í dag, lék í fyrstu uppfærslunni. „Ég er mikill aðdáandi hennar sem leiddi mig að verkinu. Þegar maður setur upp verk sem maður hefur mikla ástríðu fyrir hentar stundum að það sé einleikur.

Þegar ég las yfir verkið kviknaði hjá mér einhver tilfinning. Ég fékk þýðanda til liðs við mig og eftir að við ákváðum að setja verkið upp fóru styrkirnir að skila sér,“ útskýrir Björk.

Í verkinu er skyggnst inn í líf, sorgir og sigra aðalpersónunnar, en óvænt stefnumót á flugvelli leiðir af sér ákaft, ástríðufullt og sjóðandi heitt ástarsamband. Fljótlega tekur hið eðlilega fjölskyldulíf við; kaupa hús, eignast börn, jöggla ferlunum - fjölskyldan þeirra er venjuleg fjölskylda. Þar til heimurinn þeirra fer að molna í sundur og hlutirnir taka óhugnanlega stefnu.

Verkið er í senn kómískt og tragískt, eða eins og segir á einum stað í því: „,Ég hitti manninn minn í boarding-röðinni á leiðinni í EasyJet flug og ég verð að segja að mér líkaði strax illa við hann.”

Akkúrat þessi beygja er það sem heillaði Björk hvað mest. „Þetta er saga um ofbeldi og kafar djúpt ofan í það. Stundum er sagt að þetta séu konur á móti körlum en reyndin er að við saman höfum mótað samfélag sem virkar ekki. Verkið byrjar kómískt þannig það nær vel til áhorfenda en tekur síðan U-beygju eftir hlé.“

Verkið verður sýnt í Herðubreið, Seyðisfirði á fimmtudagskvöld 16. júní og í Valhöll Eskifirði laugardaginn 18. júní í samvinnu við Menningarstofu Fjarðabyggðar. „Ég er sveitamanneskja í mér, pabbi að norðan og mamma af Suðurlandinu. Okkur fannst miður að leikhúsin fari ekki nógu mikið út á land og fannst mikilvægt að segja þessa sögu víðar en í borginni,“ segir Björk að lokum. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.