Mikilvægt að Norðurlandaþjóðir hafi sterka rödd í Evrópusamstarfinu
Á fundi norrænu forsætisráðherranna á Egilstöðum 14. júní gerði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra grein fyrir því að Alþingi Íslendinga hefði nú til umfjöllunar tillögu til þingsályktunar um umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Tillagan gerði ráð fyrir því að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Forsætisráðherra kvaðst vonast til þess að tillagan yrði samþykkt og óskaði eftir stuðningi og góðum ráðum norrænu ESB-ríkjanna í því ferli sem þá tæki við. Forsætisráðherrar norrænu Evrópusambandsþjóðanna fögnuðu þessum áformum og buðu Íslendinga velkomna í Evrópusamstarfið.
Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir auk ofangreinds að Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, hafi á fundinum greint frá helstu stefnumálum Svía á formennskutíma þeirra í Evrópusambandinu en þeir taka við formennsku
1. júlí n.k. Hann upplýsti að Svíar myndu leitast við að greiða aðildarumsókn Íslendinga leið hjá Evrópusambandinu og koma henni á dagskrá eins fljótt og auðið væri. Forsætisráðherrar Danmerkur og Finnlands lýstu einnig vilja til að verða að liði.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að fundur norrænu forsætisráðherrarnna sýni að Evrópusamstarfi sé ekki ætlað að koma í stað þess norræna. Norðurlandaþjóðir hafi sterka rödd í Evrópusamstarfinu, þar standi þær saman þegar kemur að sameiginlegum hagsmunamálum og stefnumiðum eins og í málefnum Norður-Atlantshafsins og norðurskautssvæðanna.
Forsætisráðherrarnir ræddu einnig viðbrögð við alþjóðlegu fjármálakreppunni og mikilvægi norræns samráðs og samstarfs til að draga úr afleiðingum hennar. Þá fjölluðu þeir um tillögur um aukið samstarf Norðurlanda í öryggis- og varnarmálum sem kynntar voru í skýrslu Thorvalds Stoltenbergs fyrrverandi utanríkis og varnarmálaráðherra Noregs. Þeir voru sammála um að líta á tillögurnar sem viðbót við alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum sem fram fer á vegum NATO og Evrópusambandsins og jafnframt að vinna að því að útfæra nokkrar tillögur betur, s.s. um aukið samstarf Norðurlanda um öryggi á N-Atlantshafi og loftrýmisgæslu.
Þá gáfu forsætisráðherrarnir frá sér yfirlýsingu í loftslagsmálum þar sem kveðið er á um að styrkja beri norrænt samstarf til að knýja fram alþjóðlegan sáttmála á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember.
Yfirlýsing norrænu forsætisráðherranna um loftslagsmál
15.6.2009
Norðurlönd eru í fararboddi í loftslagsmálum. Styrkja ber enn frekar samstarf á því sviði á næstu
árum þar sem loftslagsmál verða forgangsmál í alþjóðasamstarfi.
1. Norrænu ríkin ætla að vinna markvisst að því að ná fram metnaðarfullum samningi á
loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember og munu norrænu forsætisráðherrarnir leggja
sérstaka áherslu á að unnið verði að því á æðstu stöðum. Mikilvægt er að öll ríki heims leggi sitt af
mörkum til að:
Stöðva frekari losun. Eigi síðar en 2020 ber að stöðva frekari aukningu í losun
gróðurhúsalofttegunda. Það verður að gera með því að skuldbinda iðnríkin til að draga
umtalsvert úr losun á næstu árum samhliða aðgerðum í þróunarríkjunum þar sem
grundvöllur verður lagður að samfélögum með minni koltvísýringslosun. Áform landanna í
loftslagsmálum verða að vera í samræmi við langtímamarkmið um að andrúmsloft jarðar
hitni ekki meira en um 2 gráður og að dregið verði um helming úr losun gróðurhúsalofttegunda
fyrir árið 2050 í samræmi við grundvallarákvörðun um sameiginlega en dreifða
ábyrgð.
Raunhæfar losunaráætlanir og fjármögnun. Í Kaupmannahöfn ber að ná sátt um samning
sem vísar veginn svo metnaðarfull markmið náist, hvort heldur er til skemmri eða lengri
tíma litið. Markmið okkar er að fylgja samningum eftir með aðgerðum og stefnumiðum sem
stuðla að sjálfbærri þróun og breytingum í græn hagkerfi. Styðja ber með trúverðugum hætti
þróunarríkin í aðlögun að því að draga úr koltvísýringslosun. Auðugri ríkjum ber að
fjármagna aðgerðir sem stuðla að því að fátækustu ríkin nái mælanlegum markmiðum um
minni losun.
Komið verði á alþjóðlegum koltvísýringsmarkaði. Við fögnum áformum um evrópskan
koltvísýringsmarkað. Mikilvægt er að verðleggja koltvísýring ef takast á að breyta
hagkerfinu og draga verulega úr losun. Það skiptir öllu ef við eigum að ná markmiðum
okkar í loftslagsmálum. Við viljum vinna að því að evrópskt kvótakerfi um
koltvísýringslosun tengist sambærilegum kerfum í öðrum heimshlutum með það að
markmiði að skapa alþjóðlegan koltvísýringsmarkað.
2. Norrænu ríkin verða að leggja enn frekari áherslu á vistvænar lausnir og vera öðrum til
fyrirmyndar við að byggja upp samfélög þar sem lítið er losað af lofttegundum sem skaða
andrúmsloftið. Ný verkefni og önnur sem þegar hefur verið hleypt af stokkunum eiga að sýna
heiminum hvernig Norðurlönd hafa í sameiningu ráðist gegn loftslagsvandanum með
metnaðarfullum aðgerðum.
Öndvegisrannsóknir. Í fyrsta þætti rannsóknaráætlunarinnar setja Norðurlönd rannsóknir í
loftslagsmálum í forgang. Sex verkefnaáætlanir um betri orkunýtingu, vindorku og aðra
endurnýjanlega orkugjafa, auk koltvísýringsbindingar, eru til vitnis um alþjóðlegar lausnir.
Norðurlönd eiga að vera opin fyrir samstarfi við önnur ríki, þar með talið þróunarríkin, um
að nýta rannsóknir sínar í hagnýtum lausnum.
Grænar samgöngur. Norrænu forsætisráðherrarnir vilja nýta norrænt samstarf til að draga
úr koltvísýringslosun frá samgöngum með betri orkunýtingu og nýjum orkulausnum.