„Mín ferðalög voru og eru hér á landi“

Þórhallur Þorsteinsson hefur í hátt í fjörtíu ár verið framarlega í starfi Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Starfsemin hefur vaxið og breyst á sama tíma, bæði hefur félagsmönnum fjölgað en líka ferðafólki sem nýtir til dæmis skála í eigu félagsins.

„Líklega var helsti hnykkurinn í því þegar ég fór í Kverkfjöll sem ungur maður. Unni mér vel þar og á þeim tíma hafði ég orðið mér úti um einkaflugmannspróf og hafði aðgang að lítilli einkaflugvél.

Við tókum þá upp á því nokkrir að leggja svona nokkurs konar flugvöll í Kverkfjöllum og það einfaldaði töluvert að fara á staðinn í kjölfarið. Svo jókst þessi áhugi fljótt og örugglega og hér er ég enn,“ segir Þórhallur um kveikjuna að ferðaáhuganum.

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs er það þriðja fjölmennasta í landinu og sér um landfræðilega stærsta svæðið. Starfsemin hefur hefur vaxið í samræmi við aukinn fjölda ferðafólk en félagið hefur séð um skálana á Víknaslóðum og Kverkfjöllum, svo dæmi séu nefnd.

Er rétt að takmarka fjölda á einstökum stöðum?


Þórhallur er meðal þeirra sem velta hafa upp hvort íslenskar náttúruperlur þoli þann fjölda sem vill skoða þær.

„Það má vissulega fara að velta upp þeirri spurningu hvort tiltekna staði sem njóta sívaxandi vinsælda þurfi að vernda betur en nú er gert. Mér dettur í hug í því tilliti Víknaslóðir, en á háannatíma yfir hásumarið er fjöldinn sem þar er á ferð, að mínu mati, eins mikill og hann má verða.

Það sem gerist gjarnan þegar slíkir staðir verða of vinsælir að þá minnkar áhuginn smám saman, kvartanir verða algengari og fjöldinn kallar á meiri vinnu við að halda stígum og skálum góðum.

Það segir sig sjálft að það getur pirrað margt göngufólk ef það er alltaf að taka fram úr einhverjum öðrum eða finnur varla pláss á tjaldsvæðum. Þetta finnst mér aðeins vera að eiga sér stað á Víknaslóðum yfir hásumarið en það er borð fyrir báru á öðrum tímum reyndar.

Mér fyndist eðlilegt að fara að skoða hvort beita þurfi einhverjum takmörkunum á fjöldanum fyrr en síðar. Þá horfi ég gjarnan til einhvers konar gjaldtöku, enda vel þekkt erlendis að greiða þurfi fyrir aðgengi að slíkum stöðum sem Víknaslóðir eru. Hvers vegna ætti það ekki að gilda hér? Ég myndi glaður vilja sjá að sveitarfélagið og landeigendur kæmu að því að koma slíku á innan ekki langs tíma.“

Enginn vill taka ábyrgð á utanvegaakstrinum


Utanvegaakstur er ein birtingamynd þessa ágangs. Þórhallur hefur verið ötull í að benda á þann vanda sem erfitt er að taka.

„Það virðist enginn vilja taka á þessu neina ábyrgð. Ferðamennirnir forðast polla eins og heitan eldinn þó þar sé reyndar besta undirlagið á þessum fjallvegum og slóðum. Þeir beygja þá gjarnan af veginum og mynda umsvifalaust aðra slóð á viðkvæmum svæðum sem gróa seint eða aldrei. Ég fæ ekki séð að þetta sé hátt skrifað hjá þeim sem ráða hvort sem það er sveitarfélagið eða Vegagerðin sjálf.“

Þórhallur hefur farið um fjöll og firnindi hérlendis en minna ferðast erlendis. Hann beinlínis hváir við þegar hann er spurður hvort hann hafi ekki jafn gaman af að ferðast erlendis.

„Mér telst til að ég hafi farið erlendis fimm sinnum um ævina og læt það bara gott heita. Ef aðrir njóta þess að fljúga út í heim er það í góðu lagi mín vegna en mín ferðalög voru og eru hér á landi.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar