Minkur vildi inn hjá sóknarprestinum

Minkur gerði sig heimakominn á útidyratröppum sr. Láru G. Oddsdóttur prests á Valþjófsstað í Fljótsdal á dögunum. Hann lagðist á glugga og gerði sig líklegan til að komast inn, en hafði þó ekki erindi sem erfiði og haskaði sér burt skömmu síðar. Örlög hans réðust svo í hlöðunni næsta dag.minkur.jpg

Sr. Lára segir að sést hafi til minksins af og til í nokkra daga og hann skilið eftir sig úrgang á útidyramottunni. Svo var það einn daginn að hún sat við skrifborð sitt við opinn glugga og sá þá hvar minkurinn góndi inn. Hún náði að loka áður en kauði bauð sér inn fyrir og greip myndavélina. Minkurinn uggði ekki að sér og sat hinn rólegasti fyrir áður en hann gafst upp og fór með skottið milli lappanna, enda enga fæðu að hafa. Minkabani sveitarinnar, Hjörtur Kjerúlf, var kallaður til, en minkurinn var þá farinn. Þá var sett gildra í hlöðuna og endaði dýrið þar líf sitt og kjáir því ekki meira framan í prestinn.

Sr. Lára segist hafa haft veður af mink við húsið fyrir nokkrum árum, en að öðru leyti plagi þessi dýr ekki húshaldið.

 

 

 

 

minkur2.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar