Minna á að Egilsstaðir eru hreindýrabærinn

Útilistaverk af hreindýrstarfi, sem komið hefur verið fyrir á klettunum beint ofan við tjaldsvæðið á Egilsstöðum, var fyrir viku formlega afhent sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Aðstandendur verksins vonast til að það verði gestum og íbúum til yndisauka og auki athygli á bænum.

Ívar Ingimarsson hefur verið drifkrafturinn að gerð tarfsins en hann segir hugmyndina hafa komið upp í samtali hans og eiginkonu hans, Hrefnu Arnardóttur, fyrir nokkrum árum.

„Við vorum velta fyrir okkur hvað væri hægt að hafa hér fleira sem skemmtilegt væri að horfa á og Hrefna stakk upp á að gera hreindýr í anda svörtu tuddana sem sjást víða á Spáni,“ segir Ívar.

Samstarfsverkefni

Þau fengu ýmsa í lið með sér. Unnar Erlingsson útfærði hugmyndina nánar og nokkrir af helstu hreindýrafræðingum svæðisins fóru yfir hana. Teiknarinn Jón Baldur Hlíðberg hannaði prófílmynd af hreindýstarfi.

Hann var síðan skorinn út hjá Myllunni og settur upp af starfsmönnum fyrirtækisins. Niðurstaðan var að skera tarfinn út í 5 millimetra járnplötum, samsettur úr tvöföldu lagi með ramma á milli til að veita styrk á móti vindálagi. Tólf fyrirtæki í bænum veittu styrki til gerðar dýrsins.

„Við vildum hafa eitthvað skemmtilegt til að horfa á en líka minna á að hreindýrin eru bara á Austurlandi. Tarfurinn minnir á einkenni Egilsstaða sem er hreindýrabær Íslands,“ segir Ívar.

Sést vel úr ýmsum áttum

Hann segir mikilvægt að dýrið væri vel sýnilegt. Skúlptúrinn er því 50% stærri en hefðbundinn hreindýrstarfur, upp á efstu krúnu eru 2,5 metrar og 1,7 metrar upp á herðakamb. Þannig sést dýrið vel frá þjóðveginum, hvort sem komið er inn í bæinn úr norðri eða suðri. Þá sést það einnig vel úr miðbænum en best frá tjaldsvæðinu þangað sem margir ferðamenn koma.

Listaverkinu var komið á sinn stað um miðjan júlí en sem fyrr segir afhent formlega fyrir viku. „Við settum dýrið upp fyrst án þess að vekja mikla athygli á því. Við viljum hafa þetta hljóðlátt listaverk, sem fólk tekur eftir þegar það horfir í kringum sig.

Við höfum heyrt frá fólki að þetta þyki flott. Við vonum að fólk labbi í auknu mæli upp á klettana, gönguleiðin er þægileg og þaðan er fallegt útsýni yfir bæinn. Við vonum að það verði fólki hvatning til að taka myndir af bænum og dýrinu sem aftur veki athygli á bænum. Þá er tilganginum náð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.