Mál yfirlæknis aftur til ríkissaksóknara

Ríkisútvarpið greindi frá því í gær að ríkisendurskoðun sé búin að vísa máli yfirlæknis Heilsugæslu Fjarðabyggðar til ríkissaksóknara. Þegar leitað var staðfestingar þessa hjá ríkisendurskoðun í dag kvaðst embættið ekki tjá sig um málið að svo stöddu en á næstunni yrði send út fréttatilkynning.

 

Frétt RÚV:

,,Ríkisendurskoðun hefur vísað máli yfirlæknis Heilsugæslu Fjarðabyggðar til ríkissaksóknara.

Stofnunin sendi embættinu formlegt erindi vegna málsins á föstudag og fer fram á lagt verði mat á það hvort ástæða sé til að aðhafast frekar í málinu.

 

Embættið þarf því að meta hvort nægilegar sannanir liggi fyrir til að tilefni sé að ákæra lækninn fyrir að draga sér fé. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisendurskoðun telur stofnunin að sýslumaðurinn á Eskifirði sem jafnframt er lögreglustjóri og ákvað að ákæra manninn ekki að lokinni rannsókn, kunni að vera vanhæfur í málinu vegna persónulegra tengsla við yfirlækninn. Þegar grunsemdir um vanhæfi séu til staðar sé yfirleitt rétt að opinberir embættismenn segi sig frá málum.

 

Þetta er í annað skipti sem mál tengd yfirlækni heilsugæslu Fjarðabyggðar kemur til kasta ríkissaksóknara. Fyrr á þessu ári vísaði yfirstjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands kæru á hendur lækninum fyrir fjárdrátt til embættisins eftir að lögreglustjórinn á Eskifirði hafði tekið ákvörðun um að ákæra lækninn ekki. Ríkissaksóknari komst að sömu niðurstöðu en þá tók ríkisendurskoðun málið upp og það er nú semsagt komið aftur inná borð ríkissaksóknara.“ www.ruv.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.