Mottan helfraus við björgunarstörfin

Félagar í björgunarsveitinni Jökli eru meðal þeirra sem taka þátt í söfnunarátaki Mottumars, árvekniátaks um krabbamein í körlum, sem lýkur á morgun. Sumum hefur þó orðið kalt þegar yfirvaraskeggið er eitt eftir.

„Þetta var hugmynd eins og hver önnur og við framkvæmdum hana. Þetta snýst um að styrkja gott málefni og hafa gaman af,“ sagir Sigmar Daði Viðarsson, formaður sveitarinnar.

Níu félagar í sveitinni taka þátt í átakinu sem lýkur á miðnætti á morgun. Sigmar segir að sumir félaganna hafi byrjað fyrr en aðrir að safna og því verið komnir með forskot þegar marsmánuður gekk í garð. Hann bætir við að það hafi ekki endilega verið þeir sem helst þurftu á forskotinu að halda. Skeggsöfnunin gangi þó almennt vel. „Þetta lítur orðið vel út.“

En það er ekki bara sældin sem fylgir yfirvaraskegginu. „Við fórum í útkall upp á Háreksstaðaleið á mánudagskvöld. Einn okkar er vanur að vera alskeggjaður en var þarna nýbúinn að raka sig og skilja mottuna eina eftir. Hún ein var frosin. Honum var svo kalt að hann sagðist aldrei ætla að raka sig aftur!“

Alls þurfti að aðstoða ellefu bíla á leiðinni þetta kvöld. „Útkallið kom klukkan níu um kvöldið, rétt eftir að þjónustu Vegagerðarinnar lauk. Það kom á óvart þegar síminn pípti því hér niðri í byggð var blankalogn. Uppi var hins vegar kolvitlaust veður og vel ófært.

Það stoppuðu bílar á veginum, síðan skóf í kringum þá sem varð til þess að aðrir stöðvuðust. Við fylgdum sjö bílum niður, björgunarsveitin Vopni tveimur og tveir fóru í Möðrudal.“

Mynd: Liðsmaður Jökla með frosið skeggið í útkallinu á mánudagskvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.