Mótmæla því að Breiðdalsheiði verður ekki mokuð í vetur
Sveitarstjórn Breiðdalshrepps mótmælir harðlega þeirri þjónustuskerðingu sem fellst í niðurskurði Vegagerðarinnar í vetrarþjónustu. Samkvæmt þeim eru þjónustudagar á þjóðvegi 1 yfir Breiðdalsheiði felldir niður, og einungis á að ryðja eitthvað áleiðis inn Breiðdalinn tvisvar í viku. Krafist er endurskoðunar ákvörðunar Vegagerðarinnar.
Hér í Breiðdal snýst þetta ekki einungis um mokstur yfir Breiðdalsheiði heldur einnig um þá íbúa sveitarfélagsins sem búa inn í dalnum og eiga rétt á þjónustu eins og aðrir. Börn þurfa að komast í skóla, mjólk þarf að sækja í kúabú og íbúar þurfa að komast til vinnu svo dæmi séu nefnd. Því er ljóst að með ákvörðun um niðurskurð í vetrarþjónustu er verið að færa kostnað við nauðsynlegan snjómokstur frá ríkisvaldinu yfir á sveitarfélög.
Sveitarstjórn Breiðdalshrepps krefst þess að framangreind ákvörðun Vegagerðarinnar verði endurskoðuð og skorar á ráðherra sveitarstjórna- og samgöngumála, ásamt þingmönnum kjördæmisins að beita sér til þess að svo megi verða.