Múla Gígur hundur ársins
Þórdís Rún Káradóttir frá Eskifirði kom heim með þrenn verðlaun af nýafstaðinni sýningu hjá Hundaræktunarfélagi Íslands. Husky-hundur hennar, Múla Gígur úr ræktun frá Gunnlaugsstöðum á Fljótsdalshéraði var valinn hundur ársins.„Múla Gígur þótti standa sig best af svokölluðum veteran-hundum sem eru aðeins eldri, en Gígur er átta ára gamall. Slíkar sýningar eru haldnar fjórum til fimm sinnum á hverju ári og miklu kostað til í hvert sinn, sem gefur kannski hugmynd um hversu stór þessi heimur er bæði hérlendis og erlendis,“ segir Þórdís um árangurinn.
Þórdís Rún á annan husky-hund, Babalou, sem varð annar í almennum flokki husky-hunda. Þá fékk Eric, skoskur terrier sem hún á með vinkonu sinni, fyrstu verðlaun í sínum flokki.
Ættingjar Múla Gígurs áttu líka góðu gengi að fagna en Múlaættin er ræktuð af Hjördísi Hilmarsdóttur á Gunnlaugsstöðum á Völlum. Múla Tara, móður Gígurs, varð í öðru sæti og bróðir hans, Múla Jökull, þriðji.
Husky-hundarnir eru góð gæludýr
Þórdís hefur ekki verið lengi búsett á Eskifirði, en þangað flutti hún úr Garðinum á Suðurnesjum fyrir nokkrum árum. „Sjálf er ég búin að eiga husky síðan 2005. Það voru upphaflega foreldrar mínir sem fengu sér husky og þá var ég bara lítill krakki. Ég ólst sem sagt eiginlega upp með þessari tegund og alltaf voru að bætast við hundar og allar götur síðan hafa verið svona þrír til fimm hundar á heimilinu á hverjum tíma fyrir sig.
Hver hundur hefur auðvitað sinn eigin persónuleika eins og mannfólkið, en heilt yfir var gott að alast upp með þessum hundum og ég hef haldið áfram að halda hunda allar götur síðan. Husky hundar eru þó almennt góðir innandyra og auðvelt að halda þá þannig. Þeir eru góð gæludýr,“ segir hún.
Hún kveðst vera nýgræðingur í hundasamfélaginu en hugar að því að stíga lengra inn í það með ræktun og jafnvel sölu því von er á goti á heimilinu í vor.
„Hundar hafa verið aðal áhugamál mitt frá barnsaldri, en ég hef aldrei hugsað um að rækta eða neitt slíkt fyrr en nú. Ég sé fyrir mér ef gotið gengur vel að prófa mig áfram með ræktun og selja í kjölfarið. Ég er allavega með mjög góð eintök til þess að hefja slíkt.“
Mynd: Hundaræktendafélag Íslands
Lengri útgáfa birtist í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Hægt er að panta áskrift hér.