Mustang frá Reyðarfirði á bílasafnið á Breiðdalsvík

Mustang árgerð 1966 er meðal nýrra sýnisgripa á Bílasafninu á Breiðdalsvík sem á sunnudag fagnar eins árs afmæli sínu. Fleiri nýir sýningargripir eru mættir á svæðið.

Bílarnir á safninu eru annars vegar í eigu aðstandenda þess, hins vegar einkaaðila sem lána þá á safnið. Reynt er að skipta um helming bílanna ár hvert til að halda því lifandi.

Meðal þeirra bíla sem mæta til leiks í sumar er Ford Mustang, árgerð 1966, sem kom þá nýr til Reyðarfjarðar og er enn upprunalegur.

„Bóas Sigurðsson, skoðunarmaður, keypti bílinn 1969 og síðan hefur hann verið innan þeirrar fjölskyldu. Hann er í flottu ástandi miðað við að hafa aldrei verið gerður upp. Það sést að hann er notaður en ekkert ryðgaður eða skemmdur,“ segir Ingólfur Finnsson, einn aðstandenda safnsins.

Af öðrum nýjum bílum má nefna Bentley sem kom fyrst hingað til lands árið 2001 og var um tíma í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar sem og annan Jagúar og BMW bifreið. Eins vekur athygli að Volkswagen rúgbrauð frá árinu 1965 verður meðal safnbílanna í sumar.

„Við erum ekki bara með sportbíla heldur er þetta blandað. Rúgbrauðið er alveg einstakt, húsbíll frá miðjum sjöunda áratugnum, allt viðarklætt að innan,“ útskýrir Ingólfur.

Þá er verið að undirbúa safn inni í safninu með munum frá Vatnskotsætt í Þingvallasveit en Helga Hrönn Melsteð, kona Ingólfs sem einnig tekur virkan þátt í Bílasafninu, er af þeirri ætt. „Við erum byrjuð að sanka að okkur munum sem tengjast ættinni. Við erum komin með Harley Davidson hjól, 1931 árgerð. Það kom til landsins 1945. Pétur Símonarson frá Vatnskoti flutti það hinn. Hann var að læra rafmagnsverkfræði í Danmörku þegar hann varð innlyksa í stríðinu. Hjólið er uppgert, alveg eins og nýtt.“

Bílasafnið opnaði í lok júní í fyrra og fékk góðar viðtökur. „Við fengum um 2.500 gesti. Viðbrögðin voru mjög góð. Í fyrsta lagi höfðum við flotta bíla, í öðru lagi er salurinn glæsilegur og í þriðja lagi höfum við reynt að fylgja fólki og segja frá bílunum. Þetta þrennt saman virðist gleðja nær alla sem hingað koma,“ segir Ingólfur.

Helsta djásn safnsins er Benz-bifreið Werners Gerlachs, sendiherra Nasistastjórnar Þjóðverja á Íslandi við upphaf seinna stríðs. Hann er á sínum stað eins og í fyrra.

„Hann er mjög vinsæll enda sennilega einn merkilegasti bíll landsins. Gerlach kom hingað til lands árið 1938. Þjóðverjar ætluðu að hernema Ísland en Bretar urðu fyrri til, handtóku Gerlach og haldlögðu bílinn. Hann var boðinn upp og gekk milli nokkra eigenda þar til maður úr bandaríska varnarliðinu keypti hann um 1970 og flutti hann með sér. Sá gerði bílinn upp og þá fannst í þaki hans loftnet og annar ljósabúnaður. Bíllinn var síðan keyptur hingað til lands fyrir um tíu árum og hafði þar til í fyrra aðeins verið sýndur einu sinni opinberlega,“ segir Ingólfur að lokum. 

Ingólfur við Gerlach-bílinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.