Orkumálinn 2024

Myndbandið við nýja lagið tekið á Austfjarðarúnti

Tónlistarmaðurinn Daníel Hjálmtýsson gaf nýverið út nýtt lag, Back to Bed, en myndbandið við lagið alfarið tekið upp á Austurlandi. Daníel, sem flutti austur til Fáskrúðsfjarðar á síðasta ári, segir fjöllin og fjörðinn eystra hafa jákvæð áhrif á sköpunargáfuna.

„Austurlandið er mikil perla, nánast kvikmyndaver hvert sem litið er. Hér eru ótrúlega fjölbreyttir staðir þar sem hægt er að taka upp ólíka stemmingu, hvort sem er ballöður eða þungarokk.

Í þessu myndbandi vildum við fá pínu drunga. Við ætluðum að búa til senur sem blandað yrði saman í handahófskenndum draumi,“ segir Daníel.

Þrír á rúnti

Með honum í myndbandinu leikur stjúpsonur hans, Hrafn Viðar en Jónatan Leó Þráinsson frá Fáskrúðsfirði tók upp myndbandið. Í myndbandinu má senur víða af Austurlandi, til dæmis Eskifirði, Stöðvarfirði og Skriðuklaustri.

„Við vissum hvað við vildum gera en ekki alveg hvernig. Við fórum því þrír saman á rúntinn um Austfirði. Jónatan var leiðsögumaðurinn, hann þekkti eiginlega alla og vissi í hvern átti að hringja.

Það var gaman að gera myndbandið því það voru allir svo opnir fyrir okkur og til í að leyfa okkur að taka upp. Fyrirvarinn var ekki mikill, eins og þegar við fórum yfir á Mjóeyri þar sem við fengum að fara inn í hús til að skjóta senur.

Við Jónatan höfðum aldrei talað eða unnið saman áður en við byrjuðum að gera þetta myndband. Okkar samstarf er bara að byrja, við höfum fleiri hugmyndir. Það eru tökustaður bæði hér í Fjarðabyggð og víðar sem við höfum augastað á. Við höfum verið í sambandi við bandarísku útvarpsstöðina KEXP um að taka upp myndband fyrir hana hér.“

Innblástur úr firðinum

Daníel er uppalinn Reykvíkingur en flutti austur á Fáskrúðsfjörð til sambýliskonu sinnar. Utan tónlistarinnar kennir hann í Grunnskólanum á Reyðarfirði og þjálfar hjá Körfuknattleiksfélagi Fjarðabyggðar. „Það hefur staðið til að gera myndband hér síðan ég byrjaði að heimsækja konuna mína hingað,“ segir hann.

Lagið hefur fengið ágætar viðtökur, meðal annars spilun á bæði Rás 2 og KEXP. „Þetta er sennilega poppaðasta lagið mitt og því tengir fólk kannski meira við það en fyrri lög mín. Þau eru vanalega þyngri í anda Leonard Cohen og Nick Cave.“

Daníel sendi frá sér EP-plötu í fyrra og vinnur nú að breiðskífu sem hann áformar að gefa út á næsta ári. Hann segir Austfirðinga hafa mikil áhrif á tónlista. „EP-platan var tilbúin áður en ég flutti hingað og er því samin á öðrum stað á öðrum tíma.

Síðan hef ég sent frá mér tvö lög sem eru undir áhrifum að búa hér. Það er meiri innblástur í því að horfa á fjöllin og hafið hér en steinsteypuna þannig ég held það sé gott fyrir listamann að flytja út á land. Sumarið hefur verið skemmtilegt og það hefur áhrif á tónlistina sem og þegar sólin hverfur á veturna. Ég fíla hvernig heimabyggðin hvetur til sköpunar.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.