Mynduðu semíkommu sem tákn um von og framhald

Ljósahátíð var haldin á vegum Vegahússins í gærkvöldi sem hluti af Gulum september, vitundarverkefni um geðrækt og sjálfsvígsforvarnir. Henni lauk á að mynduð var semíkomma, tákn verkefnisins, úr friðarkertum utan við húsið.

„Semíkomman er tákn um von og framhald. Hún er ekki punktur heldur er kemur eitthvað á eftir henni. Þannig minnir hún okkur á að staldra við og taka svo næstu skref.

Við mynduðum hana úr logandi friðarkertum. Þarna áttum við fallega stund í septembermyrkrinu þar sem við nutum þess að vera saman og horfa í ljósið meðan við hugsuðum um lífið og vonina,“ segir Hildur Bergsdóttir, verkefnastýra hjá Vegahúsinu.

Hvað er Vegahúsið ungmennahús?


Vegahúsið er rekið af sveitarfélaginu Múlaþingi og hýst í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Um er að ræða eins konar félagsmiðstöð ætlaða ungmennum á aldrinum 16-25 ára. Vetrarstarf þess er að hefjast en gærkvöldið var meðal annars notað til að heyra frá ungmennunum um hvað þau vilja.

Uppistaðan í starfinu er klúbbastarf sem gjarnan hittast strax eftir að skóladegi lýkur. Í kvöld hittist til að mynda hinsegin klúbbur hússins.

Af hverju Vonarljósavaka?


Gulur september vitundarátak í geðrækt og sjálfsvígsforvörnum sem ýmsar stofnanir og félagasamtök standa að. „Okkur sem ungmennahúsi fannst ekki annað hægt en að gera eitthvað fallegt og áttum fallega kvöldstund þar sem ungmenni af svæðinu áttu svæðið,“ segir Hildur um gærkvöldið.

„Við vorum með frábær tónlistaratriði frá krökkum sem eru virk í starfinu okkar. Síðan vorum við með minni smiðjur. Það var hægt að búa til geðræktarkrukkur þar sem ungmennin tóku góð ráð og sultuðu ofan í krukku. Á bjargráðaveggnum var bent á samtök og aðstoð sem er í boði, síðan var þakklætisþráður um þakklæti og mikilvægi þess að horfa á hið góða og fallega í kringum okkur auk hugmyndasmiðju um starfið í vetur.

Karen Ómarsdóttir frá Eskifirði hélt fyrir okkur erindi um sína reynslu. Hún hefur reynt ýmislegt en á fallega sögu um seiglu og von og hvernig hægt er að nýta geðrækt sér til hagsbóta. Eftir að hafa tendrað á kertunum enduðum við kvöldið á gong-slökun.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.