Nálahúsið varð til vegna þarfar á handavinnudóti
Eftir brunann í Vaski síðasta haust lenti handavinnufólk á Fljótsdalshéraði í vanda með að útvega sér garn og fleira. Heiður Ósk Helgadóttir var verkefnalaus eftir eldsvoðann og gekk í að opna Nálahúsið á Egilsstöðum.„Þegar Vaskur brann hvarf ansi margt. Ég fann þörfina. Hver einasta handavinnukona sem ég hitti fyrstu vikurnar eftir brunann spurði hvar hún gæti keypt tvinna eða garn,“ segir Heiður Ósk í samtali við Austurgluggann.
Hún hafði í ellefu ár haft umsjón með handavinnuvörum í Vaski. „Þegar mesta áfallið var farið að rjátlast af mér fór ég að hugsa hvernig ég vildi hafa nýja handavinnudeild í Vaski. Síðan rann upp fyrir mér að það væri ekkert öruggt varðandi nýja handavinnudeild í Vaski, hvenær Vaskur gæti farið af stað að nýju eða hvernig.“
Heiður Ósk fann sér aðstöðu á neðri hæð Hótels Héraðs og opnaði Nálahúsið í desember. Þar er hún með opið 15-17:30 virka daga og 12-14 á laugardögum. Þar er hægt að finna það helsta sem þarf í prjón og útsaum, svo sem garn, tvinna, nálar, tölur og fleira.
Heiður Ósk kveðst þakklát fyrir viðtökurnar til þessa. „Þetta hefur vakið mikla lukku og ég hef eiginlega brosað allan hringinn síðan ég byrjaði því það hrósa mér allir. Hér hefur verið góð umferð af fólki þótt ekki viti allir af mér enn. Ég hef lítið auglýst en það er ótrúlegt hvað orðið berst.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.