Nammi og rósir í öll hús á Vopnafirði á Vinavikunni

„Það er svo margt sem hefur staðið upp úr hingað til en til dæmis skrúðgangan sem markaði upphaf Vinavikunnar og svo var sundlaugarpartíið frábært svo fátt sé nefnt,“  segir Ásdís Fjóla Víglundsdóttir úr æskulýðsfélagi Hofsprestakalls -Kýros.

Æskulýðsfélagið stendur fyrir sinni fyrstu Vinaviku á Vopnafirði um þriggja ára skeið en eins og með annað féll vikan sú niður vegna faraldursins síðustu tvö árin. Vinavikan snýst nákvæmlega um það sem nafnið segir; að sýna öðrum vinskap og virðingu, koma fram við fólk eins og þú vilt að komið sé fram við þig og hafa gaman af öllu saman í leiðinni. Hátíðin hófst síðasta föstudag og lýkur á sunnudaginn kemur með messu í kirkju bæjarins.

Það hefur sannarlega tekist  nú sem áður að lyfta fólki upp og fjölga vinaböndum að sögn Ásdísar sem ásamt öðrum í æskulýðsfélaginu hefur haft veg og vanda af undirbúningi og dagskránni allri en í æskulýðsfélaginu eru krakkar úr 7., 8. og 9. bekk grunnskóla.

„Við höfum brallað ýmislegt síðustu dagana. Við kepptum við eldri borgara í boccia og fórum með þeim í bingó. Svo gengur við í öll hús í bænum og gáfum súkkulaði og rósir og buðumst til að gera eitthvað fyrir alla. Gáfum leikskólakennurum smá frí og lékum við börnin þar. Svo var ratleikur í gær og nú erum við að undirbúa að taka á móti vinum okkar annars staðar frá. Það eru á leiðinni kringum 120 krakkar af ýmsum stöðum í kringum eins og Dalvík, Djúpavogi og Egilsstöðum og þau ætla að vera með okkur síðustu dagana á hátíðinni. Það verður mjög gaman að fá meiri félagsskap.“

Frá keppni ungmennanna við eldri borgara í boccia fyrr í vikunni. Engum sögum fer af hver bar sigur úr býtum enda skipti það minnstu máli. Aðalatriðið að tryggja vinabönd þessara ólíku hópa. Mynd Vinavikan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.