Námslöngun gæti kviknað á Kveikjudögum í Menntaskólanum á Egilsstöðum

Allir þeir sem enn eru í vafa um hvað þá langar að læra, gera og verða í framtíðinni gætu notið góðs af því að reka inn nefið í Menntaskólann á Egilsstöðum (ME) næstu dægrin. Frá og með morgundeginum fara þar fram svokallaðir Kveikjudagar þar sem fólk getur kynnt sér hin og þessi menntunartækifæri bæði innanlands og utan.

Líklega er sjálfur Háskóladagurinn stærsti viðburðurinn meðan á Kveikjudögum stendur en sá hefst strax klukkan 11 á morgun. Þar gefst námsfúsum tækifæri til skoða í þaula og fá kynningu á því námsúrvali og námsmöguleikum sem háskólar landsins bjóða upp á næstu misserin og árin.

Að sögn skólastjóra ME, Árna Ólasonar, er vonast eftir sem flestum á morgun milli 11 og 13 enda nokkur ár síðan að háskólar landsins komu saman til að kynna sig og sitt fyrir Austfirðingum á einum og sama staðnum.

„Háskólarnir verða hér með sínar kynningar í hátíðarsalnum okkar og nemendur fá auðvitað frí meðan á því stendur til að kynna sér málin. Það verður hér stór hópur frá stóru háskólunum báðum, Háskólinn á Bifröst kynnir sitt og Háskólinn á Akureyri líka. Þá verða hér aðilar sem bjóða háskólanámið í tölvunarfræði á Reyðarfirði svo það verða allir helstu aðilar landsins að koma sínu á framfæri.“

Í kjölfar Háskóladagsins á morgun verða kynningar alla virka daga í ME fram til 14. mars en þar meðal annars um að ræða ítarlegar kynningar á námsmöguleikum og námsstyrkjum bæði í Bandaríkjunum og Evrópu auk þess sem bæði Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík fá sinn hvorn daginn til að frekari kynningar. Sömuleiðis er í boði að fá ráðgjöf um atvinnuleit og gerð ferilskrár.

Árni hvetur sem flesta til að koma og nýta sér að háskólarnir hafi loks fundið Austurland á kortinu á nýjan leik en fjögur ár eru liðin síðan slíkar kynningar voru síðast í boði í fjórðungnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar