Nanna hlakkar til að spila í Egilsbúð í fyrsta sinn
Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, oft þekkt sem Nanna í hljómsveitinni Of Monsters and Men, heldur tónleika í Neskaupstað á laugardagskvöld. Nanna er síðan á leiðinni í Evrópuferð til að fylgja eftir sinni fyrstu sólóplötu. Hún segist spennt fyrir að koma fram í Egilsbúð þar sem hún hefur ekki spilað áður.„Ég er að pakka niður í töskuna og hlakka til að fara af stað og spila í Egilsbúð þar sem ég hef ekki spilað áður,“ segir Nanna.
Hún sendi í vor frá sér plötuna How to Start a Garden. Nanna flytur plötuna í heild sinni með hljómsveit sem hún hefur sett saman fyrir tónleikaferð sína. Tónleikarnir eru endapunkturinn á tónleikaröðinni Tónaflug sem SÚN, Menningarstofa Fjarðabyggðar og Beituskúrinn hafa staðið fyrir í Neskaupstað.
„Ég er með æðislegt tónlistarfólk sem er með mér í að túlka þessa plötu. Það er ekkert OMAM efni að þessu sinni. Ég held þessu tvennu alveg aðskildu,“ útskýrir hún.
Nanna fór síðsumars í tónleikaferð um Bandaríkin. Hún tók sér síðan stutt frí áður fyrir aðra törn í Evrópu með millilendingu á Íslandi. Nanna kom fram á Iceland Airwaves um síðustu helgi á tónleikum sem gott orð fer af.
„Við vorum með tvenna tónleika í Fríkirkjunni. Hún er einstakur vettvangur. Það verður svo heimilislegt þar, fólkið situr á gólfinu þannig það myndast falleg og skemmtileg stemming.“
Gaman þegar hljómsveitir komu í Garðinn
Nanna spilar á Græna hattinum á Akureyri á morgun áður en hún heldur austur og kemur fram í Egilsbúð í Neskaupstað á laugardag. Í næstu viku verður hún í Evrópu. Þar hefur hún ekki spilað áður en segja má að Of Monsters and Men hafi farið beint í heimsfrægðina.
„Við vorum á flakki sumarið eftir að við unnum Músíktilraunir en í raun höfum spilað miklu minna hérlendis en við hefðum viljað. Við fórum hringinn í Covid og tókum upp heimildamyndirnar en spiluðum þá bara fyrir myndavélarnar.
Ég er sjálf úr Garðinum og ég man hvað það var gaman, þótt það gerðist ekki oft, þegar hljómsveitir komu til að spila í Garðinum. Ég man eftir að þegar ég var sjálf að byrja að spila þá kom Hjaltalín, rétt áður en hún sló í gegn fyrir alvöru. Ég fékk að hita upp fyrir þau sem var mjög gaman.“
Nanna getur því sett sig í spor Ínu Berglindar Guðmundsdóttur úr Fellabæ sem hitar upp fyrir hana í Egilsbúð á laugardag. „Ég er búinn að heyra efni frá henni og mér líst mjög vel á það. Það er mikið spunnið í hana og ég er spennt fyrir að hlusta á hana. Það er gaman að fá að heyra hvað er að gerast í tónlistinni á svæðinu.“