National Geographic í heimsókn á Hvannabrekku

Breska útgáfa tímaritsins National Geographic birti í síðustu viku frásögn blaðamanns og ljósmyndara af heimsókn sinni og þremur málsverðum með heimilisfólkinu að Hvannabrekku í Berufirði.

Greinina má í heild sinni finna á vef blaðsins en útsendarar þess heimsóttu heimilisfólkið að Hvannabrekku, Auðbjörgu Stefánsdóttur og Steinþór Björnsson og börn þeirra átta í byrjun aðventu. Þar búa þau með ríflega 200 kýr og 50 kindur.

Tekið er á móti blaðamönnunum um hádegi á laugardegi með hrútspungum, laufabrauði, kartöflum og nautatungu. Þá lítur við sjómaður sem kynntur er sem Kiddi. Hann kemur með hákarl sem hann segist borða á hverjum morgni því hann sé svo góður gegn magaverkjum.

Auðbjörg bakar pönnukökur fyrir kaffitímann en í kvöldmat er lambakjöt með brúnuðum kartöflum. Á milli máltíða fer National Geographic um býlið og skoðar þar meðal annars heimarafstöð sem hefur verið í gangi í um 20 ár.

Yfir kvöldmatnum er talað í belg og biðu á ensku og íslensku. Þar fljúga sögurnar, til að mynda um að faðir Auðbjargar hafi eitt sinn slotið heimilisköttinn í misgripum fyrir tófu. Hún segist reyndar ekki trúa honum því honum hafi verið illa við ketti.

Úr Berufirði. Mynd: Guðný Gréta Eyþórsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.