National Geographic í heimsókn á Hvannabrekku
Breska útgáfa tímaritsins National Geographic birti í síðustu viku frásögn blaðamanns og ljósmyndara af heimsókn sinni og þremur málsverðum með heimilisfólkinu að Hvannabrekku í Berufirði.Greinina má í heild sinni finna á vef blaðsins en útsendarar þess heimsóttu heimilisfólkið að Hvannabrekku, Auðbjörgu Stefánsdóttur og Steinþór Björnsson og börn þeirra átta í byrjun aðventu. Þar búa þau með ríflega 200 kýr og 50 kindur.
Tekið er á móti blaðamönnunum um hádegi á laugardegi með hrútspungum, laufabrauði, kartöflum og nautatungu. Þá lítur við sjómaður sem kynntur er sem Kiddi. Hann kemur með hákarl sem hann segist borða á hverjum morgni því hann sé svo góður gegn magaverkjum.
Auðbjörg bakar pönnukökur fyrir kaffitímann en í kvöldmat er lambakjöt með brúnuðum kartöflum. Á milli máltíða fer National Geographic um býlið og skoðar þar meðal annars heimarafstöð sem hefur verið í gangi í um 20 ár.
Yfir kvöldmatnum er talað í belg og biðu á ensku og íslensku. Þar fljúga sögurnar, til að mynda um að faðir Auðbjargar hafi eitt sinn slotið heimilisköttinn í misgripum fyrir tófu. Hún segist reyndar ekki trúa honum því honum hafi verið illa við ketti.
Úr Berufirði. Mynd: Guðný Gréta Eyþórsdóttir