Náttúran þarf að eiga öflugan málsvara

Þorgerður María Þorbjarnardóttir var í vor kjörin formaður Landverndar, stærstu náttúruverndarsamtaka Íslands. Þorgerður bjó á Egilsstöðum til 18 ára aldurs og hefur síðan starfað sem landvörður á Austurlandi.

Þorgerður hefur lengi starfað að náttúruvernd, fyrst innan Ungra umhverfissinna þar sem hún var um tíma formaður. Ánægja af þeim störfum varð til þess að hún fór í leiðtoganám í náttúruvernd við Cambridge-háskóla í Englandi.

„Það var mjög forvitnilegt nám þar sem við fengum nýja fyrirlesara á hverjum degi og úr ýmsum mismunandi áttum frá samtökum eða hreyfingum í náttúruvernd auk aðila frá fyrirtækjum,“ segir Þorgerður María í viðtali í Austurglugganum.

Skrifa tugir umsagna árlega


Þorgerður segir Landvernd hafa í næg horn að líta en samtökin skrifa umsagnir um fjölmargar framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á ári hverju. „Ég gæti trúað að við séum að skrifa 70 til 80 umsagnir um hin ýmsu verkefni árlega því það er nánast alltaf leitað til okkar til að fá sjónarmið þeirra sem standa með náttúruvernd. Það er ójafn leikur því þó við séum stór erum við samt bara lítil í samanburði við mörg þau fyrirtæki og stofnanir sem við erum að gera athugasemdir við “

Hún segir almenning ekki alltaf fá bestu upplýsingar sem völ sé á og vill efla aðkomu félagasamtaka að framkvæmda- og skipulagsferli. „Oft erum við með aðila sem fá greitt frá framkvæmdaaðilum til að gera umhverfismat og annað. Við þurfum að stórefla rétt náttúruverndarsamtaka til að hafa umboð til að sækja ýmis mál er varða náttúruna.

Náttúruverndarlögin eru ekki nógu sterk hvað varðar aðkomu náttúruverndarsamtaka að málum. Það er ekki fyrr en komið er framkvæmdaleyfi sem samtökin hafa almennileg verkfæri í höndunum, en þá er það oft of seint til að ná að hafa stór stefnumarkandi áhrif. Það má efla rétt samtaka eins og okkar mikið til að geta haft áhrif fyrr í ferlinu en nú er.“

Tónlistin í ættinni


Utan náttúrufræðinnar sækir Þorgerður María í tónlistina. Hún á ekki langt að sækja þá hæfileika, hún er dóttir Þorbjarnar Rúnarssonar, sem áberandi var í sönglífi Austurlands samhliða því sem hann starfaði sem áfangastjóri Menntaskólans á Egilsstöðum og Helgu Magnúsdóttur, sem einnig söng víða en hún er aftur dóttir Magnúsar Magnússonar, tónskólastjóra á Egilsstöðum til áraraða.

„Ég tók mér árs frí frá skóla eftir háskólann og ætlaði þá jafnvel að huga að tónlistarnámi því ég var í kór Menntaskólans í Hamrahlíð og hafði afar gaman að. Það breyttist svo fljótlega þegar ég verð gjaldkeri ungra umhverfissinna og síðar formaður og ég sökkti mér svo í það að ég átti lítinn tíma aflögu í annað. Ég hef samt tónlist áfram sem mitt aðal áhugamál og er í kór Hallgrímskirkju.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.