Náttúruljósmyndir Jónínu ferðast áfram um heiminn

Norðurljósamyndir frá Jónínu G. Óskarsdóttur, ljósmyndara á Fáskrúðsfirði, vöktu mikla athygli árið 2012 eftir að bandaríska geimferðarstofnunin NASA notaði þær til að sýna dæmi um mikilfengleika ljósanna. Að undanförnu hafa myndir Jónínu gert víðreist, að þessu sinni af glitskýjum.

Um er að ræða myndir sem hún tók í lok janúar. Fyrsta alþjóðlega birtingin var á vefnum SpaceWeather.com þann 25. janúar síðastliðinn. Síðan þá hafa myndirnar reglulega verið endurbirtar á ýmsum miðlum og haft hefur verið samband við Jónínu til að segja frá myndunum eða vitnað til fyrri umfjallana. Einnig hafa fylgt útskýringar á hvernig glitský myndist og að þau séu sjaldséð.

„Mér finnst skemmtilegt að fólki þyki gaman að sjá náttúrufyrirbrigðin og að geta leyft fólki að njóta þeirra,“ segir Jónína í viðtali við Austurgluggann í vikunni.

„Ég safna hjá mér slóðum á síðurnar sem birta þær. Þær telja vel á annan tug tungumála og búnar að fara víðar, til dæmis til Bandaríkjanna, Kanada, Grikklands og Ástralíu. Síðast hafði arabíska útgáfa CNN samband,“ segir Jónína.

Jökultindurinn gaf rétta forgrunninn


Vinsælasta myndin er með Jökultindi í forgrunni en litrík glitskýin á bakvið. „Síðustu vikuna í janúar voru glitský á himninum dag eftir dag og sáust vel. Ég var heima og sá hvernig birtan í herberginu breyttist. Ég bý efst í bænum og þegar ég lít út sé ég vel fjallgarðinn og heiminn. Mér finnst skemmtilegast að mynda síðdegis þegar birtu er farið að þverra. Smám saman birtast litirnir eins og olíubrák á skýjunum. Þá koma meiri andstæður í myndina og litirnir verða ýktari.

Þennan dag voru mikil glitský á himni. Ég þurfti að keyra dálítið til að geta fengið rétta sjónarhornið. Ég leitaði að því til að fá þennan bakgrunn sem síðan hefur vakið athygli,“ segir Jónína um tilurð myndarinnar.

Sem fyrr segir er Jónína hvað þekktust fyrir norðurljósamyndir úr Fáskrúðsfirði sem fóru vítt um heiminn fyrir ellefu árum. Á síðu sem hún heldur úti á Facebook sem Icelandic Queen of Aurora Borealis hefur hún yfir 70 þúsund fylgjendur. Á Flickr-síðu hennar má finna enn fleiri norðurljósamyndir.

Jökultindurinn með glitskýin í bakgrunni. Mynd: Jónína G. Óskarsdóttir

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar