Neistaflug: Fjölskylduvæn bæjarhátíð

Neistaflug verður haldið í sautjánda sinn um verslunarmannahelgina. Í þetta skiptið er horft  aðeins til baka og lagt upp úr því að halda fjölskylduvæna bæjarhátíð fremur en útihátíð.

 

Austurglugginn ræddi við Höskuld Sæmundsson en hann hefur síðustu vikurnar aðstoðað félagana í tónlistarklúbbnum Brján í Neskaupstað við skipulagningu hátíðarinnar.
Neistaflug hefur þróast og breyst í gegnum árin og fylgir takti samfélagsins. Í ár er  fjölskyldan í fyrirrúmi og upp úr því lagt að afþreying sé fjölbreytt og því ættu allir ungir sem aldnir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Fjölskyldan skemmtir sér saman

Hápunktur hátíðarinnar er sunnudagurinn en þá er miðbæjarhátíð og fjölbreytt dagskrá, leikir, glens og grín, göngutúrar, vöfflukaffi í heimahúsum. Um kvöldið er hin árlega kvöldvaka með brennu og brekkusöng við Nesskóla þar sem ýmsir skemmtikraftar koma fram. Kvöldvökunni líkur með flugeldasýningu og dansleik með hljómsveitinni Buff í Egilsbúð.
En þó hápunktur hátíðarinnar sé sunnudagurinn byrja íbúar bæjarins að skreyta hverfin sín  í lok vikunnar. Hið hverfaskipta litaþema er nýtt af nálinni. Á föstudag eru hverfagrill þar sem allir mæta með eitthvað á grillið og í framhaldinu skrúðganga sem endar í miðbænum og er þá hátíðin formlega sett. Um kvöldið er Tónatitringur en það er árviss tónlistarhátíð þeirra félaga í Brján.

Sjötíu Færeyingar í heimsókn

Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá útum allan bæ á laugardag og hefst dagskrá snemma með Barðsneshlaupi. Það er eitt þessara svokölluðu almenningshlaupa sem eru inn í dag. Höskuldur segir áhuga á hlaupinu óvenju mikill en óvenju margar skráningar voru komnar í byrjun vikunnar. Fleiri mót og keppnir eru á um helgina meðal annars golfmót, dorgveiðikeppni, þrautakeppni og svo mætti lengi telja. Þess má einnig geta að barnadansleikur í Egilsbúð  á laugardeginum.
Yfir sjötíu Færeyingar mæta til Neskaupstaðar á fimmtudag en þeir koma frá Íþróttafélagi Sandvogs. Neskaupstaður og Sandavogur hafa verið vinabæir í fjörutíu ár en skipst er á heimsókn annað hvert ár.
Nánari upplýsingar um hátíðina eru á www.neistaflug.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.