Nýr löndunarkrani á leiðinni og afskipanir framundan

Nú á næstunni er búist við tveimur flutningaskipum til landsins á vegum HB Granda. Um helgina er von á flutningaskipinu Ice Louise til Vopnafjarðar frá Noregi með löndunarkrana fyrir fiskimjölsverksmiðjuna, sem er enn einn liðurinn í öflugri uppbyggingu uppsjávarvinnslu félagsins á staðnum. Í næstu viku verður svo flutningaskipið Viking Frio á ferðinni í Reykjavík og síðan er von er á skipinu til Vopnafjarðar þar sem lestaðar verða ýmiss konar afurðir til útflutnings.

lundey_vefur.jpg

Jón Helgason, sölustjóri uppsjávarafurða HB Granda, segir á vefsíðu fyrirtækisins að Viking Frio verði í Reykjavík nk. fimmtudag og að von sé á skipinu til Vopnafjarðar á mánudag eftir rétta viku. Í Reykjavík verður skipað út ýmiss konar afurðum frá frystitogurum félagsins og á Vopnafirði verður tekið við loðnu- og síldarafurðum. Reikna má með því að alls verði 800 til 900 tonnum af afurðum skipað út á báðum stöðum. Áfangastaðir skipsins ytra eru í Póllandi og Litháen en að sögn Jóns er góð spurn eftir sjávarafurðum á báðum þessum markaðssvæðum.

 

 

,,Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum eru hafnar og í fiskiðjuveri okkar á Vopnafirði er búið að framleiða 450 tonn af samflökum (flöpsum). Vinnslan hefur gengið mjög vel. Það hefur verið einhver áta í síldinni en það veldur engum vandkvæðum í þessari framleiðslu. Síldin er stór og falleg en ekki mjög feit en það er s.s. eins og við er að búast á þessum árstíma,” segir Jón Helgason.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar